Ásmundarsalsmálið svokallaða, þar sem lögreglan tilkynnti fjölmiðlum um að „háttvirtur ráðherra“ hafi verið í fjölmennu samkvæmi í samkomubanni, hefur vakið mikla umræðu um persónuverndarsjónarmið og rétt almennings til upplýsinga.

Nefnd sem hef­ur eft­ir­lit með störf­um lög­reglu skoðar samskipti lögreglu við fjölmiðla vegna tilkynningarinnar sem barst á aðfangadag í fyrra um að ráðherra hafi verið viðstaddur samkvæmi í Ásmundarsal þar sem sóttvarnarreglur voru brotnar. Mbl greindi fyrst frá.

Í dagbókarfærslu lögreglu, sem barst fjölmiðlum á aðfangadagsmorgun kom meðal annars fram „að á milli 40-50 gestir voru samankomin í salnum, þar á meðal einn háttvirtur ráðherra í ríkisstjórn Íslands.“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var í fjölmennu samkvæmi í Ásmundarsal á Þorláksmessu.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari/Stefán

„Háttvirtur ráðherra“ augljós kaldhæðni

Friðrik Þór Guðmundsson, blaðamaður og nefndarmaður í siðanefnd Blaðamannafélags Íslands, telur líklegt að ekki hefði verið talin ærin ástæða til að skoða málið, nema vegna þess að í dagbókarfærslunni var augljós kaldhæðni viðhöfð, með því að segja „háttvirtur ráðherra“ en um var að ræða Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra.

„Fram hefur komið að verklagsreglur lögreglu eru skýrar um svona upplýsingagjöf og ég á ekki von á að nokkuð breytist, annað en að færsluhöfundurinn fær skammir og áminningu,“ segir Friðrik í samtali við Fréttablaðið.

„Fjölmiðlum er ætlað að veita valdhöfum aðhald, einkum kjörnum valdhöfum.“

Persónuvernd sá ekkert að færslunni

RÚV greindi frá því að Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir, dóms­mála­ráð­herra, ræddi á að­fanga­dag við lög­reglu­stjórann á höfuð­borgar­svæðinu um mál Ás­mundar­sals. Kvaðst Ás­laug ekki vera að skipta sér af rann­sókn málsins með sím­talinu heldur hafi hún rætt upp­lýsinga­gjöf lög­reglu og persónuverndarsjónarmið.

Lög­reglan á höfuð­borgar­svæðinu sendi frá sér tilkynningu í kjölfar umfjöllunarinnar á aðfangadag um að mis­brestur hafi orðið til þess að per­sónu­greinan­legar upp­lýsingar hafi verið sendar úr dag­bókinni.

Vert er að nefna að Persónuvernd taldi ekki tilefni til að aðhafast vegna dagbókarfærslunnar en Vigdís Eva Líndal, staðgengill forstjóri Persónuverndar, sagði að almennt njóti opinberar persónur minni friðhelgi en aðrar.

Dómsmálaráðherra segist hafa rætt persónuverndarsjónarmið við lögreglustjóra.
Mynd/Anton Brink

Hlutverk fjölmiðla að veita valhöfum aðhald

Friðrik Þór bendir á að bæði lögregla og blaða- og fréttamenn verða auðvitað að hafa persónuvernd ríkulega í huga. En siðaviðmið blaðamanna geri skýran greinarmun á stöðu almennra borgara annars vegar og svokallaðra opinberra persóna hins vegar, þ.e. að upplýsingar um orð, gjörð og hagi þeirra sem hafa mikil völd og áhrif og bera mikla ábyrgð gagnvart almenningi, lúti öðrum lögmálum en upplýsingar um Jón og Gunnu.

Friðrik Þór segir ekki sjálfsagt að rannsóknar- og saksóknarayfirvöldum veiti almenningi slíkar upplýsingar en ef fjölmiðlum berast slíkar upplýsingar er fyllilega réttmætt að yfirvöld staðfestir þær eða hafni.

„Fjölmiðlum er ætlað að veita valdhöfum aðhald, einkum kjörnum valdhöfum. Til að geta sinnt því hlutverki vel þurfa þeir ríkan upplýsingarétt. Ekki er lögreglunni ætlað slíkt aðhaldshlutverk og hún þarf ávallt að vega og meta hvaða upplýsingar hún veitir af eigin frumkvæði, meðal annars með rannsóknarhagsmuni í huga.“

„Þeir eru vanir því að þurfa að toga ítarupplýsingar upp úr lögreglunni með töngum. Þeir eru jafnframt vanir því að stóla frekar á óopinbera upplýsingagjöf, ónafngreinda heimildarmenn og leka.“

Ekki eðlileg tregða

Verið er að endur­skoða reglur um upp­lýsinga­gjöf lög­reglu til fjöl­miðla í ljósi til­kynningar lög­reglunnar. Aðspurður segist Friðrik ekki eiga von að þetta mál breyti nokkru í samskiptum lögreglu og fjölmiðla. Almennt séð hafi blaða- og fréttamenn búið við þær aðstæður að lögreglan segi opinberlega mest lítið um ætlaða gerendur í lögbrotum, nema helst í alvarlegustu brotum.

„Þeir eru vanir því að þurfa að toga ítarupplýsingar upp úr lögreglunni með töngum. Þeir eru jafnframt vanir því að stóla frekar á óopinbera upplýsingagjöf, ónafngreinda heimildarmenn og „leka“.“

Lögregla veitir oft einungis upplýsingar um allra stærstu afbrot og einkum ef upp kemur þörf til þess að „auglýsa“ árangur í stórum fíkniefnamálum að mati Friðriks.
Fréttablaðið/Stefán

Segir hann þetta ekki geta talist sem eðlileg tregða og bendir á að rannsóknar- og saksóknaryfirvöld í flestum vestrænum lýðræðisríkjum séu klárlega mun virkari að veita upplýsingar opinberlega en sömu yfirvöld á Íslandi, þá sérstaklega ef það á við um opinberar persónur eins og pólitíska og efnahagslega valdhafa.

„Hér á landi boðar lögreglan helst til blaðamannafundar í stærstu morðmálum eða þegar mikið magn af fíkniefnum næst. Við getum borið saman prinsipp um upplýsingagjöf lögreglu og annarra rannsóknaraðila almennt hérlendis við ítarlega upplýsingagjöf sömu aðila í Bandaríkjunum almennt og nú síðast eftirminnilega vegna umferðarslyss þekkts kylfings, Tiger Woods.“

Tregðan ansi sterk hjá lögreglu

Friðrik lýsir því að um áratugaskeið byggði upplýsingaöflun blaða- og fréttamann á að hafa öflugt tengslanet, ekki síst inn í pólitíkina og meðal embættismanna. Blaðamenn voru nokkuð háðir því að heimildarmenn veittu upplýsingar, gjarnan óopinberlega og með „lekum“. En smám saman hefur þetta breyst og færst í rétta áttina, samfara dauða flokksmálgagana sem megin fjölmiðla landsins.

„Upplýsingalög frá 1996 voru mikilvægur áfangi, en reyndar með fullmiklum undanþágum og svikum á loforðum um að birta málaskrár ráðuneyta. Krafa um aukið gagnsæi eftir Hrunið 2008 breytti líka ýmsu í þessu umhverfi.“

En upplýsingatregða er enn fyrir hendi að mati Friðriks.

„Sú tregða er enn ansi sterk hjá lögreglu og öðrum rannsóknaraðilum. Allt of algengt er að þeir aðilir túlki hvers konar upplýsingagjöf sem andstæða rannsóknarhagsmunum, á þann veg að ekki einu sinni almennar staðreyndir mála fái að koma fram. Nema helst, sem fyrr segir, ef um er að ræða allra stærstu afbrot og einkum ef upp kemur þörf til þess að „auglýsa“ árangur í stórum fíkniefnamálum.“