Þau hópsmit sem komu upp um helgina má rekja til einstaklinga sem greindust við landamæraskimun og fóru ekki varlega í sóttkví en lögreglan er nú með þeirra mál til rannsóknar. Að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis voru brotin framin upp úr mánaðamótunum en smitin sýna hversu auðveldlega ein manneskja getur komið af stað hópsýkingu.

Þórólfur greindi frá því á upplýsingafundi almannavarna í dag að gripið hafi verið til aðgerða um leið og vitneskja um brotin lágu fyrir en að þá hafi aðrir þegar smitast af veirunni. „Það tekur eina jafnvel tvær vikur fyrir aðra að veikjast og og smitin koma í ljós þannig að við erum alltaf að vinna tveimur vikum á eftir í því sem hefur gerst,“ sagði Þórólfur.

„Þegar við erum með smitrakninguna, þá byggist hún á þeim upplýsingum sem viðkomandi aðili er að gefa okkur, hverja þeir hafa hitt og hverja þeir hafa umgengist, og það er oft einkenni þegar við erum að fást við brot í þessum málaflokki að upplýsingar sem við fáum eru mjög takmarkaðar,“ sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn enn fremur.

Skerpa eftirlit

Aðspurður um hvort fyrri reglugerð um að skylda fólk á sóttkvíarhótel hefði breytt stöðu mála vísaði Þórólfur til þess að brotin hafi átt sér stað fyrir þá reglugerð en að það hefði eflaust hjálpað, þrátt fyrir að erfitt væri að segja til um það. „Maður veit aldrei hundrað prósent en það hefði örugglega lágmarkað áhættuna myndi ég halda.“

Verið er að vinna í því að herða eftirlit með þeim sem eru í sóttkví eftir að hafa komið til landsins, þar á meðal með því að hringja í fólk sem á að vera í sóttkví. Að sögn Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns er verið að skerpa slíkt eftirlit og ef minnsti grunur er um brot þá fer málið til lögreglu.

Þá er verið að skoða mögulegar heimsóknir til þeirra sem eru í sóttkví. „Við fórum í mjög ítarlega greiningu á því, lagaheimildum og reglugerðarheimildum, það voru lögfræðingar sem fór yfir það og niðurstaðan var að það væri rétt að setja grein um eftirlitið í reglugerðir og það er bara verið að vinna að útfærslu á því,“ sagði Víðir.