Stjórn­völd hér á landi eiga al­mennt nokkuð í land með að beita reglum um að­gang að gögnum með við­unandi hætti. Þörf er bæði á við­horfs­breytingu og aukinni fræðslu innan stjórn­sýslunnar að því er fram kemur í ný­birtu á­liti setts um­boðs­manns.

Í á­litinu segir m.a. að stjórn­völd hafni of oft beiðnum um upp­lýsingar og gögn í ráðningar­málum án þess að slíkar synjanir byggi á full­nægjandi laga­grund­velli og að vísað sé til réttra laga­reglna. Þá virðist stjórn­völd ekki alltaf gera sér grein fyrir hlut­verki sínu við þessar á­kvarðanir, sér í lagi þegar einka­aðilar hafi komið að með­ferð beiðnanna.

Kvartanir er snertu rétt um­sækj­enda um opin­bert starf til að­gangs að gögnum máls urðu settum um­boðs­manni til­efni til að fjalla um helstu á­lita­mál sem þar getur reynt á segir á vef­síðu um­boðs­manns.

Álitið sent til þeirra stjórnvalda sem eiga í hlut

Í á­litinu er meðal annars bent á að þegar reynir á sam­spil stjórnsýslulaga og annarra laga þurfi að gæta þess að upp­lýsinga­réttur aðila máls sam­kvæmt stjórnsýslulögum er mun ríkari en réttur al­mennings sam­kvæmt upp­lýsinga­lögum. Þá tak­marki per­sónu­verndar­lögin ekki þann rétt til að­gangs að gögnum sem mælt er fyrir um í stjórnsýslulögum.

Í á­litinu er einnig fjallað um hvort og þá hvaða gögn geti verið undan­þegin upp­lýsinga­rétti sem vinnu­skjöl, tak­markaðan upp­lýsinga­rétt vegna hags­muna annarra, skráningu og varð­veislu upp­lýsinga, með­ferð beiðna um upp­lýsingar og trúnaðar­merkingu gagna.

Settur um­boðs­maður sendi á­litið til þeirra stjórn­valda sem í hlut áttu í þeim málum sem voru til um­fjöllunar, á­samt á­bendingum um að hafa þau sjónar­mið sem þar væru rakin fram­vegis í huga í störfum sínum. Jafn­framt var at­hygli fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, sem fer með starfs­manna­mál ríkisins, vakin á á­litinu. Annars vegar til þess að Kjara- og mann­auðs­sýsla ríkisins gæti haft hlið­sjón af því í ráð­gjöf og leið­beiningum til for­stöðu­manna ríkis­stofnana.

Hins vegar var því beint til ráðu­neytisins að meta hvort kynna ætti um­fjöllunina al­mennt for­stöðu­mönnum ríkis­stofnana. Þar sem á­kvarðanir sem vikið er að í á­litinu snerta einnig ráðningar í störf hjá sveitar­fé­lögum var það jafn­framt sent samgöngu- og sveitar­stjórnar­ráð­herra. Þá var at­hygli for­sætis­ráðu­neytisins, sem fer með fram­kvæmd stjórnsýslulaga, vakin á þeim á­lita­efnum sem kann að reyna á við af­greiðslu beiðna um að­gang að gögnum máls og hvernig þau horfa við á­kvæðum stjórnsýslulaga.

Álit umboðsmann í heild sinni má finna hér.