Maðurinn sem tók upp þriggja tíma samtal þingmannanna sex á Klaustur bar síðastliðinn þriðjudag, segir í viðtali við DV að honum hafi verið nóg boðið þegar þingmennirnir fóru að hæðast að Freyju Haraldsdóttur og Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, þingmanni Samfylkingarinnar. Þá hafi hann ákveðið að sitja allan tímann. „Þá fékk ég æluna upp í háls og ákvað að hér myndi ég sitja þangað til að samtali þeirra væri lokið. Þetta væri ekki í boði í siðuðu samfélagi.“

Í viðtalinu kemur fram að þingmennirnir hafi lítt veitt manninum athygli, sem sat skammt frá, fyrr en þau voru að fara. Þá hafi einhver í hópnum spurt hvort þessi maður hafi setið þarna allan tímann. Annar hafi þá svarað því til að þau þyrftu engar áhyggjur að fara, hann væri erlendur ferðamaður.

Maðurinn, sem kemur ekki fram undir nafni, segir að hann hafi aðeins þekkt Sigmund Davíð í hópnum. Hann segist hafa setið á barnum og verið að fara í gegn um persónuleg skjöl en að honum hafi blöskrað orðfæri fólksins. Þá hafi hann teygt sig í síma og hafið upptöku. Hann hafi um tíma þurft að færa sig lengra frá til að hlaða símann sinn. Því hafi hljóðgæðin versnað, auk þess sem hann setti stundum pappíra yfir símann, til að fela upptökuna. „Stjórnmálamenn eru í valdamiklum stöðum og hafa skyldum að gegna gagnvart okkur. Þau setja upp sparibrosið fyrir kosningar en þarna held ég að þeirra rétta eðli hafi sýnt sig. Það á erindi við almenning,“ er haft eftir manninum í DV.