Linda Tripp, sem þekktust er fyrir að hafa ljóstrað upp um sam­band Bill Clin­ton, fyrr­verandi Banda­ríkja­for­seta og Monicu Lewins­ky, er látin sjö­tíu ára að aldri. Bana­mein Tripp var krabba­mein í brisi sem hún hafði barist við um tíma.

Tripp starfaði sem al­manna­tengill í varnar­mála­ráðu­neyti Banda­ríkjanna þegar Lewins­ky sagði henni frá leyni­legu ástar­sam­bandi sínu við for­setan. Tripp tók upp sam­tal þar sem Lewins­ky greindi henni frá því að hún hafi marg­sinnis stundað mök við Clin­ton.

Bill Clinton og Monica Lewinsky í Hvíta húsinu.

Blái kjóllinn skipti sköpum


Lewins­ky var þá 22 ára gömul og var starfs­nemi í Hvíta húsinu þegar hinn 49 ára Clin­ton réði þar ríkjum. Lewins­ky trúði Tripp fyrir því að hún hafi geymt bláan kjól sem enn var með sæði úr Clin­ton.

Tripp af­henti síðar Kenneth Starr, sér­stökum sak­sóknara, upp­tökurnar sem, á­samt bláa kjólnum, urðu til þess að for­setinn var form­lega á­kærður af full­trúa­deildinni árið 1998.

Clin­ton þver­tók fyrir sam­bandið og sagðist, í sögu­legu á­varpi, ekki hafa átt í kyn­ferðis­legu sam­bandi við þessa konu, Lewins­ky.


Lewins­ky for­dæmd í kjöl­far hneykslisins


Clin­ton-Lewins­ky hneykslinu verður seint gleymt enda for­dæma­laust mál. Lewins­ky hefur lýst því að hafa alla daga síðar orðið fyrir að­sókn sam­landa sinna og að hún hafi verið ein fyrsta konan sem var tekin af lífi í fjöl­miðlum fyrir hlut sinn í málinu.

Lewins­ky birti þó tíst í gær­kvöldi þar sem hún sagði að þrátt fyrir for­tíðina óskaði hún Tripp skjóts bata og kvaðst ekki geta í­myndað sér hversu erfitt þetta væri fyrir fjöl­skyldu hennar.