„Það eru forréttindi að vera borgarstjóri en það getur verið fórn fyrir þá sem eru manni nánastir,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. „Álagið sem fylgir starfinu er oft mjög mikið og álaginu heima fyrir er misskipt eftir því. Ég skrifa aðeins um þetta í nýju bókinni og kemst þannig að orði að ég upplifi mig nánast sem gervifeminista. Ég er alinn upp í jafnrétti. Mamma og pabbi skiptu heimilisverkunum alltaf jafnt á milli sín þegar þau voru að ala okkur systkinin upp. Í þeim samanburði hef ég ekki staðið mína plikt. Það er á við framkvæmdastjórastöðu að reka heimili með fjögur börn á aldrinum 10 til 17 ára og henni hefur Arna gegnt að stórum hluta. Þannig er það bara.“

Hefurðu misst af börnunum?

„Nei, samband mitt við krakkana er gott. En það getur verið ósanngjarnt að vera makinn sem er bara til staðar þegar það er gaman hjá börnunum en vera oftast víðs fjarri þegar það þarf að leysa úr öllum þessum aragrúa hversdagslegra verkefna sem þarf að sinna á stóru barnaheimili.“

En hefurðu misst af Örnu?

„Nei, sem betur fer ekki – og þvílík gæfa að hafa hitt hana – og heppni. Það er ekkert sjálfgefið að hitta réttu manneskjuna, en það gerðist í mínu tilviki – og hennar sennilega líka,“ segir Dagur og brosir á ný: „Við eigum sem betur fer fjölmargt sameiginlegt og verjum fyrir vikið miklum tíma saman,“ segir eiginmaðurinn og bætir sem snöggvast við, „eiginlega alltaf þegar við getum,“ en bendir svo á eina ókostinn á ráðahagnum, en svo margir vinir Örnu búi í Svíþjóð þar sem hún hafi sjálf alist upp í fimm systkina hópi, næst elst á heimili Einars Þórhallssonar læknis og Sigríðar Steinarsdóttur lífeindafræðings sem hafi sest að í bænum Växjö og búi þar enn. „Það er svolítill spölur í matarboðin á þeim bæjunum.“

Hér má lesa viðtalið í heild sinni: