Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, vandaði Miðflokksmönnum ekki kveðjurnar í ræðu sinni á þinginu í dag undir dagskrárliðnum störf þingsins. Hún sagði fátækt fólk landsins þurfa að bíða eftir réttlæti í boði málþófs þeirra.

„Við erum hér með mjög mörg góð mál,“ sagði Inga og nefndi nokkur þeirra sem dæmi, afnám krónu á móti krónu skerðingar, afnám skerðinga á atvinnutekjum aldraðra sem er að koma út úr velferðarnefnd og mál Samfylkingar um velferð og bættan hag barna. „Hér liggja inni í nefndum mál sem bíða eftir að fá að komast hér í þinglega meðferð á meðan í nafni lýðræðis er Alþingi Íslendinga, æðsta ræðustól landsins, haldið hér í gíslingu,“ hélt Inga áfram og átti þá við málþóf Miðflokksins.

Inga tók þá fram að það var hún sjálf sem fyrst fór að tala um innleiðingu þriðja orkupakkans og að hún hafi alla tíð verið andsnúin honum. „En það breytir ekki þeirri staðreynd að það hlýtur einhvern tíma að koma sá tímapunktur að maður viti hvenær vitjunartími manns er kominn og maður hætti að lemja hausnum í vegginn og vera að hygla sjálfum sér daginn út og inn hér í einræðu á hinu háa Alþingi,“ sagði Inga.

„Það þýðir ekki í nafni lýðræðis að láta lítinn minnihluta haga sér eins og við höfum þurft að þola hér allan þennan tíma og í rauninni hef ég ekki upplifað neitt annað í minni tilfinningu en ofbeldi og vanlíðan yfir því að geta ekki sinnt þeim störfum sem ég var hér kosin til þess að fylgja,“ sagði Inga að lokum og tóku þingmenn úr sal undir með henni með köllum.