Áslaug Júlíusdóttir, 28 ára kona í bata frá fíknisjúkdómi, segist hafa upplifað mikla þolendaskömmun eftir að hafa losnað úr heljargreipum vændis og fíknar. „Á þessum tímapunkti hefði þurft að taka utan um mig í stað þess að dæma mig,“ segir Áslaug í nýjasta hlaðvarpsþætti Það er von.

Þar lýsir Áslaug lífinu eftir sjálfsvígstilraun og hvernig hún leiddist út í vændi vegna fjárhagsvanda og notaði fíkniefni til að deyfa erfiðar tilfinningar. Hún segir lífið hafa breyst á unglingsaldri þegar eldri bróðir hennar byrjaði í neyslu.

„Mér fannst ég þurfa að bjarga honum og bjarga fjölskyldunni en ég vissi í raun ekki neitt,“ segir Áslaug. „Ég ætlaði alltaf að vera edrú, stoltið mitt var þannig, ætlaði að bjarga, taka utan um fjölskylduna mína og vera hetja en varð svo mjög veik í meðvirkni.“

Í neyslu til að deyfa tilfinningarnar

Eftir að hafa reynt að stytta sér aldur eignaðist Áslaug heilbrigt barn og ákvað þá að taka sig á, eins og hún orðar það, meðal annars með því að klára nám í félagsráðgjöf í Flórída. Námslánin dugðu þó ekki til að ná endum saman og átti hún og sonur hennar því ekki við sældarkjör að búa í Bandaríkjunu.

„Svo er ég einn daginn í sundlaugarpartý og þá kemur maður og fer að spjalla við mig. Út frá því byrja ég að vinna sem „escort“ og fer bara út í vændi og því fylgdi mikil neysla. Þó það væru flottir íþróttamenn, á snekkju eða geggjuðu húsi með Ferrari í bílskúrnum og miklir peningar þá er þetta viðbjóður, maður er að taka sálina sína.“ Segir hún neysluna sem fylgdi hafa verið leið hennar til að deyfa erfiðar tilfinningar.

Áslaug segir myndina sem margir hafa af vændiskonum, „hórunni á horninu“, vera ekkert líkt raunveruleikanum. Á yfirborðinu var hún eins og allar aðrar konur á hennar aldri, mætti í skólann, sótti strákinn sinn í leikskólann, fór á fótboltaæfingar, „og svo var ég hóra“. Miklir peningar komu úr vændinu og fóru jafn hratt. Karlmaður var með milligöngu á vændissölunni og tók 33 prósent af tekjum hennar, hún var oft með lífverði hjá sér og notast var við kóðuð skilaboð.

„Þetta voru oft frægir menn, NFL leikmenn eða eigendur stórra fyrirtækja, skurðlæknar með vatnsrennibrautagarða í bakgarðinum,“ lýsir Áslaug og ítrekar að þótt heimurinn virtist sveipaður töfraljóma voru þetta hræðilegar aðstæður.

Ráðuneytið steig inn í málið

Utanríkisráðuneytið steig inn í málið eftir mikið áfall í lífi Áslaugar.

„Ég var tekin af einhverjum og haldið í einhvern tíma, sprautuð, misnotuð og hent svo út á götu. Þar er ég handtekin og sett inn í fangelsi.“ Sendi hún þá skilaboð á pabba sinn og bað um að fá lánaðan pening til að geta komist heim til Íslands. Segir hún pabba sinn hafa strax grunað að eitthvað væri ekki með felldu.

„Ég fékk „video-call“ og foreldrar mínir sáu bara hvernig ég leit út. Sendiráðið fór í málið og þá fara bara af stað björgunaraðgerðir.“ Fékk hún þá fylgd heim til Íslands og lýsir því hvernig hún hneig niður þegar hún sá barnið sitt í faðmi foreldra hennar. Segir hún sögu sína þó ekki enda þar.

„Mér fannst kerfið bregðast mér. Það var bara mikið mótlæti og horft á mig sem dópista. Það á enginn að þurfa að þola þolendaskömm. Mér finnst samfélagið hér á Íslandi ekki vera að taka utan um fólk.“

Hægt er að hlusta á hlaðvarpsþáttinn í heild sinni hér fyrir neðan.