Hugleikur Dagsson, einn vinsælasti grínisti, uppistandari og teiknimyndasögusmiður landsins, fékk ekki listamannalaun. Fregnirnar eru sérstaklega mikið högg fyrir Hugleik, eða Hulla eins og hann er oft kallaður, enda búinn að þróa heilan kafla í uppistandi sínu um það að vera á listamannalaunum.

Fréttablaðið hefur í dag fjallað um hverjir fengu, og fengu ekki, listamannalaun við síðustu úthlutun. Eru margir af þekktustu listamönnum þjóðarinnar ýmist hæstánægðir eða fokreiðir yfir því að fá ekki úthlutun í þetta skipti.

Sjá einnig: Einar Kára: „Hvaða djöfulsins rugl er þetta?”

Hugleikur segir það sérlega glatað að hafa ekki fengið listamannalaun í þetta skipti. „Fékk ekki listamannalaun sem er glatað því ég er að þróa heilt uppistands-bitt sem snýst um að ég sé á listamannalaunum,“ skrifar Hugleikur. Þó er aldrei langt í grínið hjá Hugleiki. „Nú verð ég að henda því og semja aðrar 5 mínútur og það launalaust. Takk fyrir ekkert, sjóður.“