Þrjár bandarískar laumusprengjuvélar af gerðinni B2 eru flognar aftur til Bandaríkjanna eftir mánaðarveru á Keflavíkurflugvelli.

Slíkar vélar, sem kosta um 90 milljarða króna hver, komu fyrst hingað árið 2019 en þetta var í fyrsta skipti sem þær hafa hér langa dvöl.

Er þetta talið marka nokkur tímamót og í nýlegri tilkynningu Bandaríkjahers segir að Keflavík verði nýr upphafsstaður í Evrópu fyrir verkefni vélanna með litlum fyrirvara.

Bandaríkjamenn hafa aukið hernaðarumsvif í Evrópu á undanförnum árum og varið miklu fjármagni í uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli og víðar, einkum vegna ásælni Rússa í Austur-Evrópu.