Breska auðkýfingnum Richard Branson var skotið á loft í dag og náði hann í 80 kílómetra hæð um borð í geimflaug Virgin Galactic áður en hann lenti svo aftur á jörðinni.

Branson segist hafa með ferðinni uppfyllt æskudraum sinn um að gerast geimfari. Hann stofnaði félagið Virgin Galactic með það í huga að bjóða upp á áætlunarflug út í geim.

Íslendingur mun fljúga með Virgin Galactic

Gísli Gíslason athafnamaður er í hópi hundrað einstaklinga sem hafa þegar keypt sér miða út í geim með félaginu og lokið nauðsynlegri geimfaraþjálfun. Gísli greiddi sjálfur 200 þúsund Bandaríkjadali fyrir ferðina og lauk þjálfun sinni árið 2014 í Philadelphiu.

Gísli þekkir fjóra af þeim sex geimförum sem flugu í dag með Richard Branson en hann var einmitt í geimþjálfun með öðrum flugmanninum. Fylgdist Gísli að sjálfsögðu með fluginu.

„Það var mikil spenna í dag,“ segir Gísli.

Richard Branson og Gísli Gíslason.

Þá mætti segja að nýr kafli í geimsögunni sé hafinn. Í þetta sinn er það ekki hugmyndafræði tveggja velda sem einkennir þetta nýja blómaskeið, heldur efnahagslegir möguleikar með nýjum tækniframförum.

Auðkýfingar á borð við Branson, Jeffree Bezos stofnanda Amazon og Blue Origin og Elon Musk stofnandi Space X, sjá ný tækifæri í þessu og hafa allir eytt fúlgum fjár í geimfyrirtæki sín.