Umsækjendur um alþjóðlega vernd fá tíu þúsund króna greiðslu í desember og fimm þúsund krónur á hvert barn sem þeim fylgir, en greiðslan er til viðbótar við fastar framfærslugreiðslur til þeirra.
Tillagan var samþykkt á ríkisstjórnarfundi síðasta föstudag, en alls eru 1.600 umsækjendur um alþjóðlega vernd í þjónustu Vinnumálastofnunar, þar af tæplega 400 börn.
Í skriflegu svari frá forsætisráðuneytinu hafa slíkar viðbótargreiðslur verið fjármagnaðar af ráðstöfunarfé ríkisstjórnar frá árinu 2017. Þá kemur fram að fjárhæðirnar hafi verið óbreyttar í gegnum árin. Til viðmiðunar séu fæðispeningar samkvæmt reglugerð um útlendinga, sem eru átta þúsund krónur á viku fyrir einstakling, þrettán þúsund krónur á viku fyrir hjón eða sambúðarfólk og fimm þúsund krónur fyrir börn. Þó geti heildargreiðslan aldrei verið hærri en tuttugu og átta þúsund krónur fyrir hverja fjölskyldu.
Endanleg fjárhæð ræðst af fjölda umsækjenda í þjónustu á greiðsludegi, en heildarfjárhæð viðbótargreiðslnanna nemur rúmlega fjórtán milljónum.