Ó­nefndur á­huga­maður um antík­muni datt heldur betur í lukku­pottinn þegar við­komandi keypti kín­verska skál á 35 Banda­ríkja­dali, um 4400 krónur, á bíl­skúrs­sölu í borginni New Ha­ven í Connecticut á síðasta ári. Skálin reyndist nefni­lega for­láta postulíns­gripur frá 15. öld á tímum Ming­veldisins.

Sá sem keypti skálina grunaði strax að um fá­gætan mun væri að ræða og leitaði til sér­fræðinga sem á­ætluðu verð­mæti skálarinnar á bilinu 300-400.000 ­dollara, á milli 37 til 50 milljóna ís­lenskra króna. Talið er að að­eins sjö sam­bæri­legar skálar fyrir­finnist í heiminum og eru flestar hinna stað­settar á söfnum.

„Það er alveg ó­trú­legt að hugsa til þess að svona­lagað gerist enn, að svona fjár­sjóðir geti fundist,“ segir Angela M­cA­teer, sér­fræðingur í kín­versku keramiki hjá Sot­heby‘s. „Það er alltaf mjög spennandi fyrir okkur sér­fræðingana þegar eitt­hvað sem við vissum ekki einu sinni að væri til skýtur upp kollinum, hálf­partinn út úr blánum.“

Ekki er vitað hvernig skálin endaði á bílskúrssölunni en ein skýring sem sett hefur verið fram er að hún hafi gengið í erfðir innan sömu fjölskyldunnar sem hafi ekki gert sér gein fyrir verðmæti skálarinnar.

Skálin verður boðin upp hjá upp­boðs­húsinu Sot­heby‘s í New York þann 17. mars næst­komandi. Hægt verður að bjóða í skálina í gegnum netið ef ein­hverjir ís­lenskir antík­s­afnarar hafa á­huga á að finna skálinni nýtt heimili hér á landi.