Ónefndur áhugamaður um antíkmuni datt heldur betur í lukkupottinn þegar viðkomandi keypti kínverska skál á 35 Bandaríkjadali, um 4400 krónur, á bílskúrssölu í borginni New Haven í Connecticut á síðasta ári. Skálin reyndist nefnilega forláta postulínsgripur frá 15. öld á tímum Mingveldisins.
Sá sem keypti skálina grunaði strax að um fágætan mun væri að ræða og leitaði til sérfræðinga sem áætluðu verðmæti skálarinnar á bilinu 300-400.000 dollara, á milli 37 til 50 milljóna íslenskra króna. Talið er að aðeins sjö sambærilegar skálar fyrirfinnist í heiminum og eru flestar hinna staðsettar á söfnum.
„Það er alveg ótrúlegt að hugsa til þess að svonalagað gerist enn, að svona fjársjóðir geti fundist,“ segir Angela McAteer, sérfræðingur í kínversku keramiki hjá Sotheby‘s. „Það er alltaf mjög spennandi fyrir okkur sérfræðingana þegar eitthvað sem við vissum ekki einu sinni að væri til skýtur upp kollinum, hálfpartinn út úr blánum.“
Ekki er vitað hvernig skálin endaði á bílskúrssölunni en ein skýring sem sett hefur verið fram er að hún hafi gengið í erfðir innan sömu fjölskyldunnar sem hafi ekki gert sér gein fyrir verðmæti skálarinnar.
Skálin verður boðin upp hjá uppboðshúsinu Sotheby‘s í New York þann 17. mars næstkomandi. Hægt verður að bjóða í skálina í gegnum netið ef einhverjir íslenskir antíksafnarar hafa áhuga á að finna skálinni nýtt heimili hér á landi.