Jón Baldvin Hannibalsson sagði í skýrslu sinni í aðalmeðferð í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun að margar atrennur hafi verið gerðar til að svipta hann mannorðinu frá og með 2002.

Telur hann að atvikið í sendiráðinu í Washington hafi verið vegna reiði sem Aldís Schram, dóttir hans, bar í garð hans eftir að hann „veitti samþykki“ til að nauðungarvista hana á árunum áður.

Því atviki hefur verið lýst sem eldhúsréttarhöldum, þar sem Aldís sagði móður sinni, Bryndísi Shcram, að hún hefði vitneskju um að Jón Baldvin, eiginmaður Bryndísar og faðir Aldísar, hefði brotið á konum og börnum.

Bryndís lýsir því að Aldís hafi komið inn í eldhúsið og byrjað að saka föður sinn um barnaníð.

„Hún sakaði föður sinn um að níðast á barni, að hafa nauðgað ömmu sinni og brotið á vinkonum mínum. Ég stóð lömuð við eldavélina og þá kom dóttir mín Snæfríður inn og réðst á Aldísi, ekki með barsmíðum heldur með orðum. Þá hurfu þær báðar út úr eldhúsinu og ég hætti að elda.“

Aldís lýsti því sem gerðist í kjölfarið. Að eftir mikil rifrildi í eldhúsinu hafi þau Jón Baldvin farið saman á efri hæðina í sendiráðinu í Washington D.C. þar sem þau útkljáðu málið í grænu herbergi. Segir hún föður sinn hafa svarað þar ásökunum og sagt atvikin hafa ýmist ekki hafa átt sér stað eða gerst þegar hann var undir áhrifum áfengis.

„Því gleymi ég ekki, það er eins og það hafi gerst í gær.“

Ávarpaði Jón Baldvin beint

Aldís Schram segir að í tveimur tilvikum hafi hún verið lögð inn á geðdeild beint í kjölfar þess að hún hafði gefið föður sínum það að sök að hafa brotið á konum.

Skýrsla Aldísar var átakanleg, þar sem hún hækkaði róminn og horfði beint í augun á föður sínum Jóni Baldvini Hannibalssyni, sem stefnir henni vegna ummæla sem hún lét falla í viðtali við Sigmar Guðmundsson í Morgunútvarpi Rásar 2, þegar hún var beðin um að rifja upp vistun sína á geðdeild árin 1992 og 1998 og uppgjörið sem hún átti við föður sinn árið 2002 í Washington D.C. Þurfti dómarinn að biðja Aldísi á einum tímapunkti að beina máli sínu til dómsins en ekki til Jóns Baldvins beint.

Jón Baldvin Hannibalsson og Kolfinna Baldvinsdóttir í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Hæstvirtur ráðherra og geðveika dóttirin

„Því gleymi ég ekki, það er eins og það hafi gerst í gær,“ sagði Aldís Schram um atvikið árið 1992 þegar hún var fyrst lögð inn á geðdeild sem foreldrar hennar segja hana hafa gert sjálfviljug.

„Hvað hafði gerst stuttu áður? Kona að nafni Laufey hafði komið heim til mín og greint frá því að hún hafi sætt kynferðisbroti af hálfu Jóns Baldvins þegar hún var 14 ára,“ sagði hún.

Í kjölfarið hafi hún hringt í föður sinn og beðið hann um að svara fyrir þessar ásakanir. Hann hafi verið utanríksiráðherra á þeim tíma og telur að það hefði ekki verið erfitt fyrir hann að fá viðtal við lækni til að tala um „geðveiku dóttur sína.“

Mikill valdamismunur hafi verið á milli þeirra. „Hins vegar er hæstvirtur utanríkisráðherra og annars vegar hin geðveika dóttir.“

Eftir að hún var vistuð á geðdeild hafi Kristinn Tómasson geðlæknir greint hana með maníu og alvarlegt þunglyndi eftir að „korters rifrildi“ að hennar sögn. Vitnað hafi verið í Laufeyju í sjúkdómsgreiningunni og þar tekið fram að Aldís hafi rætt fjölskyldumál vítt og breitt en ekki greint frá í hverju því væri fólgið. „Að ég hafi borið Jóni Baldvini á brýn kynferðisbroti gagnvart 14 ára barni.“

„Mér líður eins og ég sé föst í einhverri hryllingsmynd. Þetta er martröð.“

Helvíti á jörð

Jón Baldvin sagði í skýrslu sinni í morgun að hann hefði farið með Aldísi þetta ár á geðdeild, þ.e. árið 1992. Þau hafi tekið ákvörðun í sameiningu um að nú væri komin tími að hún myndi leita sér hjálpar. Tók Bryndís undir með því og vísaði á bug öllum ásökunum um meinta barnagirnd og kynferðislega áreitni og kynferðisbrot Jón Baldvins.

Fjölskylda Aldísar hefur lengi haldið því fram að ásakanir gagnvart Jóni Baldvini eigi rætur að rekja í meinta geðveiki Aldísar. Aðspurð um áhrif þess á líf hennar sagði Aldís:

„Áhrif? Ég á ekki orð. Mér líður eins og ég sé föst í einhverri hryllingsmynd. Þetta er martröð. Eins og gögn færa sönnur fyrir þá reyndi ég hvað ég gat til að fyrirgefa,“ sagði hún og lýsti tíma sínum á geðdeild.

„Það var helvíti á jörð að vera þarna geðdeild. Fyrirlitningin og ókurteisin, sérstaklega af hálfu geðlækna sem sögðu mér að halda kjafti ef ég vildi tala um kynferðisbrot Jóns Baldvins. Svo var lögregluinnrásin. Ég held ég sé nýbúin að jafna mig á þeim ótta sem ég hef upplifað við að sjá lögreglubíl. Þú ert ein heima með þínu barni, hurðinni er hrundið upp, barnið tekið grátandi úr faðmi þér. Að halda að maður sé að fara í fangelsi, að vita að þú eigir ekki möguleika og þessi aðstöðumunur. Ég hin geðveika gegn beiðni Jóns Baldvins, sendiherrans og fyrrverandi ráðherrans. Ég átti ekki möguleika. Hvernig ég grét og grét og grét og grét uppi á geðdeild og barnið mitt gerði slíkt hið sama.“