Birgitta Jóns­dóttir segir um á­stæður þess að hún hafi sagt skilið við pírata – eða þeir við hana, að þegar til ó­væntu kosninganna 2017 hafi komið hafi hún mjög mikið reynt að fá Katrínu Jakobs­dóttur og fleiri til að skipa bráða­birgða­stjórn og klára fjár­lögin.

„En það voru þarna Hall­dór Auðar og fleiri sem höfðu verið í borgar­stjórn. „Þeir sögðu að ég hefði verið á þingi tvö kjör­tíma­bil, þeir tóku með kjör­tíma­bilið sem ég hafði setið fyrir annan flokk. Þeir sögðu að í stefnu pírata segði að ég gæti ekki farið oftar fram,“ segir Birgitta í helgar­við­tali við Frétta­blaðið.

„Ég hefði auð­vitað getað tekið þennan slag en komst að þeirri niður­stöðu að ég gæti ekki haldið á­fram þing­mennsku þar sem eitt­hvert x hlut­fall af flokknum vildi ekki hafa mig á­fram,“ bætir Birgitta við.

Hún segist þó hafa ætlað að vinna með gras­rót flokksins á­fram og taka þátt í kosninga­bar­áttunni

„En það hafði skapast ein­hver valda­bar­átta og ég er engin valda­bar­áttu­týpa,“ bætir hún við. Það hafi farið illa í suma pírata þegar er­lendir fjöl­miðlar höfðu þrá­stagast á að hún væri leið­togi pírata og for­sætis­ráð­herra­efni þótt hún hefði sagt þessum fjöl­miðlum að flokkurinn væri með flatan strúktúr.

„Þau fóru fram á þegar ég var í stjórnar­myndunar­ræðum með ó­reyndu fólki í þing­flokknum að ég skrifaði þessum fjöl­miðlum og segði þeim að ég væri ekki leið­togi. Það var alls konar svona skrýtin dína­mík sem ég upp­lifði sem hreinan titt­linga­skít. Við höfðum fengið svo sterkt um­boð, margir áttuðu sig ekki á hvað ég þurfti að hafa mikið fyrir því að fá stjórnar­myndunar­um­boðið, það þurfti að sann­færa Bene­dikt [Jóhanns­son í Við­reisn] og fleiri.“

Heiðurs­sætið fauk eftir hálf­tíma

„Ég eyddi tveimur árum í að hugsa: Hvað gerði ég rangt,“ segir Birgitta. „En það varð alla­vega ljóst að ég passaði ekki lengur inn í þennan hóp.

Hún segist hafa dregið sig út úr kosninga­bar­áttunni en þá fari að gerast alls­konar skrýtnir hlutir.

Alexandra Briem hringir í mig og býður mér heiðurs­sæti á lista sem ég þigg. Svo hringir hún hálf­tíma seinna aftur og segir þá að hún hafi ekki mátt bjóða mér sætið, allt í einu átti Elísa­bet Jökuls að fá heiðurs­sætið og ég hvergi á lista.“

Birgitta segist hafa upp­lifað mikla höfnun og hún hafi orðið ringluð.

Vænd um að vera of­beldis­manneskja

Veistu af hverju þetta fór svona?

„Það eru margir sem hafa reynt að fá svör frá Helga Hrafni af hverju hann vændi mig um að vera of­beldis­manneskja. Ég var vænd um að vera of­beldis­manneskja og það fékk mikið á mig því ég er búddis­ti og stunda prógramm sem gengur út á að maður gangist við mis­gjörðum ef þær verða.“

Hvað áttu við?

„Þetta sem Þór­hildur Sunna dró fram á þessum fundi og ég hafði beðist af­sökunar á, ég tek á­kveðið spor strax. Síðan bað ég hana líka af­sökunar fyrir framan þing­flokkinn.

Til hvers ertu að vísa?

„Á loka­dögum þingsins var verið að klára mjög hratt alls­konar mál og meðal annars ríkis­borgara­mál. Það er oft þannig að þeir sem sækja um ríkis­borgara­rétt setja sig í sam­band við þing­menn, þeir hafa kannski lent í ein­hverju svona rugli, ekið of hratt, fengið einn punkt eða vita ekki eitt­hvað og biðja um skilning. Þessi hafði átt ís­lenska dóttur og hafði alltaf lent á milli ein­hvern veginn. Ég var eitt­hvað að hugsa og reyna að hjálpa honum en sá að nafnið hans var komið en svo var eins og að það væri eitt­hvað annað nafn og ég hélt að það væri ein­hver mis­skilningur og þá stóð á borðinu taskan hennar Þór­hildar með skjölunum um hverjir þetta voru. Ég kíkti á það af því að at­kvæða­greiðsla var að byrja og hún var föst á fundi. Ég átti auð­vitað ekki að gera þetta, þetta voru trúnaðar­gögn.“

Birgitta segist hafa reynt að bæta fyrir brot sitt.

„Hún upp­lifði að ég hefði brotið á sér og ég gengst við því. Ég baðst af­sökunar, bæði Þór­hildi Sunnu og þing­flokkinn og reyndi að bæta fyrir en hún upp­lifði að ég hefði brotið á henni og ég gengst við því. En þetta er eina málið sem ég veit til að ég hafi gert eitt­hvað af mér.“