Tekjur af áli og álafurðum námu nálægt 80 milljörðum króna á þriðja fjórðungi þessa árs. Aukningin er 72% milli ára í erlendri mynt.

Skýringarnar eru miklar verðhækkanir á heimsmarkaðsverði á áli síðustu mánuði. Ein meginástæða hækkunarinnar er minna heimsframboð, ekki síst þar sem Kínverjar hafa dregið úr álframleiðslu vegna breyttrar stefnu þarlendra stjórnvalda í umhverfismálum. Álverð sveiflast gjarnan upp og niður, en hefur nú ekki verið hærra í 13 ár.

Sólveig Bergmann, upplýsingafulltrúi Norðuráls, staðfestir uppgang. Hún segir að í kjölfar Covid hafi spurn eftir áli aukist á ný, ekki síst í samgöngum. Álið sem Norðurál framleiði fari til Evrópu. Um sé að ræða grænt ál, einhverja umhverfisvænustu álframleiðslu heims.

„Okkar ál fer mikið í íhluti í bifreiðar, byggingar og tæknibúnað,“ segir Sólveig.

Hún segir að Norðurál hafi gert langtímasamning við austurrískt framleiðslufyrirtæki um kaup á 150.000 tonnum af Natur-Al, grænni vörulínu. Það sé fyrsti langtímasamningur um grænt ál á heimsvísu.

Þá muni Norðurál innan skamms fara í 16 milljarða króna fjárfestingarverkefni til að framleiða ál­sívalninga. Arion banki fjármagni verkefnið undir merkjum grænnar fjármögnunar, enda dragi það verulega úr losun CO2. Starfsfólki hafi fjölgað, sumpart vegna styttingar vakta. Fleiri ráðningar séu í pípunum, 40 starfsmenn verði ráðnir þegar framleiðsla hefst á nýrri framleiðslulínu. Um 90 störf verði á framkvæmdatímanum.

„Við höfum ekki aukið framleiðsluna hjá okkur en við erum að búa til verðmætari vöru, erum að færast nær fullunnari afurð,“ segir Sólveig.

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni var greitt um 62 prósenta hærra verð fyrir álafurðir frá Íslandi á þriðja ársfjórðungi þessa árs en á sama tímabili í fyrra.

Útflutningstekjur af áli urðu á þriðja ársfjórðungi meiri en tekjur af sjávarafurðum. Fágætt er að slík staða komi upp, en Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi benda á að það eigi þó aðeins við um brúttó tekjur en ekki hreint framlag greinanna til útflutningstekna eða verðmætasköpunar í hagkerfinu.