Allar fjórar ratsjárstöðvarnar á Íslandi voru uppfærðar á árinu og lauk verkefninu í ágúst. Heildarkostnaðurinn var 28 milljónir evra, sem samsvarar um 4,6 milljörðum króna. Þar af greiddu Íslendingar tæpar 500 milljónir króna og Atlantshafsbandalagið (NATO) 4,1 milljarð.

Verkefnið hófst á ratsjárstöðinni á Miðnesheiði á Reykjanesi nálægt Keflavíkurflugvelli. Voru það 24 sérfræðingar úr kanadíska flughernum sem sáu um uppsetningu færanlegs ratsjárbúnaðar með aðstoð starfsfólks Landhelgisgæslunnar. Hinar stöðvarnar eru á Stokksnesi nálægt Höfn í Hornafirði, á Gunnólfsvíkurfjalli á Langanesi og Bolafjalli við Bolungarvík.

Á ratsjárstöðvunum fjórum eru langdrægar þrívíddarratsjár sem notaðar eru fyrir loftrýmisgæslu og samþætt loftrýmiseftirlit NATO. Þá nýtir Isavia hluta kerfisins fyrir almenna flugleiðsögu og flugöryggi.

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar sem sér um stöðvarnar, segir að verkefnið hafi falið í sér uppfærslur á tækni- og hugbúnaði og að einnig hafi svarratsjárkerfið verið endurnýjað með nýjum búnaði. Svarratsjár eru notaðar til þess að staðsetja flugvélar með merkjasendingu frá ratsjárstöð og ratsjársvara í vélunum sjálfum. Það var þessi hluti verkefnisins sem Íslendingar borguðu sjálfir fyrir.

Umsvif Rússa og Kínverja hafa aukist mjög á Norðurslóðum í ljósi hlýnunar jarðar og opnunar skipaleiða. Þá hafa Bandaríkjamenn og NATO brugðist við þessu með frekari uppbyggingu á norðurslóðum, meðal annars hér á Íslandi. Ásgeir segir að uppfærslan sé þó hefðbundin.

„Ratsjáreftirlitskerfið á ratsjár- og fjarskiptastöðvunum fjórum var tekið í notkun 1991 og hefur verið uppfært reglulega í þeim tilgangi að viðhalda áframhaldandi getu kerfisins og tryggja stuðning við viðhald,“ segir hann. „Afar brýnt er að á Íslandi og Norður-Atlantshafi sé virkt loftrýmiseftirlit alla daga ársins og uppfærslan tryggir að svo verði áfram.“

Þá sé kerfið einnig mikilvægt til þess að tryggja flugöryggi og svarratsjárbúnaðurinn sé nýttur til flugleiðsögu.Samkvæmt NATO er verkefnið á Íslandi önnur uppfærslan af þessari stærðargráðu sem mannvirkja­stofnun bandalagsins sér um hjá aðildarþjóð.