Boeing hefur tilkynnt flugfélögum að þau megi búast við því að búið verði að uppfæra tölvukerfi Boeing 737 MAX vélanna fyrir lok mánaðarins. Allar slíkar vélar hafa verið kyrrsettar frá því að vél frá eþíópíska flugfélaginu Ethiopian Airlines hrapaði um sex mínútum eftir flugtak. Enn er óljóst hversu lengi flugvélarnar verða kyrrsettar.

Greint er frá því í umfjöllun breska ríkisútvarpsins um málið að uppfærslan nái til svokallaðs MCAS stjórnkerfis sem er talið hafa bilað og valdið því að flugvélin hrapaði.

Greint hefur verið frá því að samkvæmt upplýsingum flugrita vélar Ethiopian Airlines og Lion Air vélarinnar sem hrapaði við strendur Indónesíu á síðasta ári. Rannsakendur hafa sagt að „augljós líkindi“ séu með báðum flugslysum.

Dennis Muilenberg, sem er formaður, forstjóri og framkvæmdastjóri Boeing, greindi frá því í opnu bréfi á heimasíðu fyrirtækisins að bráðlega yrði gefin út uppfærsla á kerfinu og samhliða því yrði gefnar út nýjar þjálfunarleiðbeiningar fyrir flugmenn. Einnig verða gerðar breytingar á viðvörunarkerfi í flugstjórnarklefa, handbók flugliða verður uppfærð auk þess sem flugmönnum verður boðið upp á þjálfun.

Enn er þó óljóst hversu lengi vélarnar verða kyrrsettar. Franskir rannsakendur sem rannsaka nú tildrög og orsök flugslyssins í Eþíópíu hafa gefið út að þau vænti þess að niðurstöður þeirra verði tilbúnar um miðjan aprílmánuð.

Greint var frá því í gær að bandarísk yfirvöld rannsaki nú hvort gallar hafi verið á framleiðsluferli Boeing 737 MAX vélanna og hvort ekki hafi nægilega vel verið tekið tillit til áhyggja um öryggi vélarinnar og svokallaðs MCAS kerfis. Bilun í MCAS kerfinu er talin hafa valdið því að þotur Ethiopian Airlines og Lion Air hröpuðu.

Sjá einnig: Rann­saka fram­leiðslu­ferli Boeing 737 MAX vélanna