„Menn ættu endilega að fylgjast með nýjustu spám og vera viðbúnir að koma búfénaði í skjól,“ segir Teitur Arason veðurfræðingur í samtali við Fréttablaðið. Hann útilokar ekki að mikill snjór geti sest í fjöll á Norðurlandi í norðan áhlaupinu sem er í vændum. Spár benda til að úrkoman á föstudaginn geti um tíma orðið sambærileg við það sem gerðist haustið 2012, þegar fé fennti í kafi.

Veðurstofan uppfærði spá sína fyrir áhlaupið nú fyrir hádegið. Breytingin frá því í gær er sú að veðrið á miðvikudag verður ögn vægara og hlýrra. „Það fer ekki að kólna fyrr en á miðvikudagskvöldið. Og áfram á aðfararnótt fimmtudags. Fimmtudagurinn er kaldur en úrkoman ekki mjög áköf,“ útskýrir Teitur. „Þar sem fellur úrkoma á Norðurlandi verður hún í formi slyddu eða snjós nánast alveg niður að sjávarmáli.“

Aðeins sex ár, og tíu dögum betur, er síðan áhlaup með mikilli úrkomu skók Norðurland. Fé fennti sums staðar í kaf. „Það var 10. september 2012,“ segir Teitur, sem er atburðurinn í fersku minni. „Ákefðin í úrkomunni á föstudaginn slagar á einhverjum tímapunkti í veðrið 2012. Þetta verður þónokkur snjór til fjalla.“

Teitur á þó ekki sérstaka von á því að snjó muni festa almennilega í byggðum, þó vissulega geti gránað, sérstaklega að kvöldi og nóttu til. Hann segir að í gær hafi litið út fyrir að veðrið myndi ganga niður þegar liði á föstudag en nú sé auka lægðabóla í spánni. „Henni fylgir aukin úrkoma og endurnýjun á hvassviðrinu. Þessi aukalægðabóla er með þannig hitastig að hún kemur með allar tegundir úrkomu. Það verður algjört bíó að fylgjast með þessu veðri fyrir norðan.“

Áhlaupið sem er í vændum er full snemma á ferðinni að mati Teits. Hann slær þó þann varnagla að veðurspáin undir helgina geti átt eftir að breytast. „Það sem er rétt að taka frá þessu er að það er norðan áhlaup í vændum og menn verða að vera undir það búnir.“

Fyrstu leitir að fé eru afstaðnar í flestum landshlutum. Teitur telur að víðast hvar sé fé í heimahögum. Hann hvetur bændur til að fylgjast með spá og vera viðbúnir því að koma búfénaði í skjól.

Spáin fyrir föstudaginn:

„Útlit fyrir hvassa norðvestanátt á föstudag. Myndarlegt úrkomusvæði nálgast úr norðri og búast má við talsverðri úrkomu á norðanverðu landinu. Hæðarmörk rigningar og snjókomu verða breytileg yfir daginn, en gera þarf ráð fyrir að um tíma verði slydda eða snjókoma á láglendi. Úrkoman verður á formi snjókomu til fjalla. Vetraraðstæður geta því skapast á vegum með tilheyrandi samgöngutruflunum. Hyggilegt gæti verið að huga að skjóli fyrir búfénað. Á sunnanverðu landinu er ekki spáð úrkomu, en þar geta snarpir vindstrengir verið varasamir fyrir ökutæki sem eru viðkvæm fyrir vindi og lausamunir geta fokið. Þessu norðan áhlaupi veldur djúpt lægðasvæði austur af landi. Enn er óvissa í spám varðandi braut lægðanna og dýpi þeirra og þar með hversu hvasst verður og hve neðarlega mörk rigningar og snjókomu verða. Engu að síður er norðan óveður af einhverju tagi líklegt. Viðvaranir verða uppfærðar eftir því sem nýir spáreikningar berast og viðvaranir verða nákvæmari og svæðaskiptar þegar dregur nær veðrinu.“