Kona á þrítugsaldri var í dag dæmd í Héraðsdómi Reykjaness fyrir síendurtekin akstur undir áhrifum fíkniefna.
Konan var dæmd til að greiða rúmlega 1.7 milljónir króna í sekt til ríkissjóðs, ella sæta 52 daga fangelsi.
Brotin sem konan er dæmd fyrir eru í sjö liðum og áttu þau sér öll stað á tímabilinu 28. febrúar til 17. ágúst á þessu ári.
Föstudaginn 28. febrúar 2020 var konan stöðvuð við akstur á Hverfisgötu í Reykjavík og mældist amfetamín í blóði hennar 2100 ng/ml en 170 ng/ml eða meira telst sem mikið magn í blóði.
Þriðjudaginn 19. maí 2020 var konan tekin fyrir að aka bifreið undir áhrifum fíkniefna, bæði amfetamíns og kannabis. Hún ók um á 153 kílómetra hraða á klukkustund vestur Suðurlandsveg í Ölfushreppi, þar sem leyfður hámarkshraði er 90 kílómetrar á klukkustund.
Konan játaði brot sín skýlaust. Hún er sakfelld fyrir að aka sex sinnum undir áhrifum fíkniefna, fyrir of hraðan akstur, fyrir akstur án ökuréttar, fyrir að hafa ekki ökuskírteini meðferðis og fyrir vörslur af lítilræði af amfetamíni.
Hún missir nú bílprófið í fimm ár. Auk sektarinnar þarf konan að greiða yfir milljón króna í sakarkostnað vegna málsins.