Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, borgarfulltrúi Viðreisnar, segir Sjálfstæðisflokkinn reyna að slá ryki í augu fólks varðandi uppbyggingu á Stekkjarbakka við Elliðaárdal. Rætt var um deiliskipulag Stekkjarbakka á borgarstjórnarfundi í kvöld.

Mikilvægt að auka þjónustu við hverfið

„Þetta er svæði sem getur ekki staðið eins og það er, það er mér því mikilvægt að með þessari uppbyggingu mun þjónustan við hverfið aukast og aðgengi að dalnum verður mun betra. Sjálfstæðisflokkurinn heldur áfram að reyna að slá ryki í augu fólks, líka sami borgarfulltrúi og hefur lagt til að í Elliðaárdalnum sjálfum rísi íþróttamannvirki eða að þarna rísi slökkviliðsstöð.“

Umrætt svæði liggur við hliðina á umferðargötu og stendur fyrir utan aðal göngu og hjólaleiðina í Elliðaárdalnum.

Ákall Sjálfstæðisflokksins fullkomin hentistefna á pólitískum forsendum

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa kallað á íbúakosningu um deiliskipulagið í lok ferlisins en Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, hefur meðal annars sagt það aðferð fyrir Eyþór Laxdal Arnalds til að afvegaleiða umræðuna frá þeirri staðreynd að félag Samherja á Kýpur sé óbeinn lánveitandi hlutabréfa Eyþórs Arnalds í Morgunblaðinu.

Þórdís Lóa tekur undir með Dóru Björt og segir stefnu Sjálfstæðisflokksins ekki á forsendum íbúanna.

„Ákall Sjálfstæðisflokksins um íbúakosningu núna er fullkomin hentistefna á pólitískum forsendum en ekki á forsendum fólksins, forsendum dalsins eða forsendum umhverfisins. Það bara verið að hræra í pottum til að vera á móti nýsköpun, einkaframtaki og uppbyggingu Breiðholts,“ segir Þórdís Lóa.

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um deiliskipulagið hér.