Vestfirska fiskeldisfyrirtækið Arctic Fish opnaði í gær nýja seiðaeldisstöð í Tálknafirði. Um er að ræða stærstu einstöku fjárfestingu í fiskeldi hér á landi en þetta verður ein tæknivæddasta landeldisstöð í heimi sem byggist á vatnsendurnýtingarkerfi.

Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Arctic Fish, segir að undirbúningur að uppbyggingu stöðvarinnar hafi hafist fyrir sjö árum. Um er að ræða eina stærstu byggingu Vestfjarða, eða yfir 10 þúsund fermetra.

Sigurður segir að fjárfesting í seiðaeldisstöðinni í Norður-Botni, Tálknafirði sé um 4 milljarðar króna og er ein stærsta fjárfesting sem ráðist hefur verið í á Vestfjörðum á undanförnum árum. „Fjárfesting í sérhæfðum tækjabúnaði er langstærsti hluti framkvæmdarinnar enda er að finna margvíslegan búnað og tæki í stöðinni sem á sér fáar hliðstæður,“ segir Sigurður.

Segir fiskeldi einn helsta vaxtarbrodd atvinnulífsins

Bryndís Sigurðardóttir, sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps, segir að fiskeldi sé einn helsti vaxtarbroddur atvinnulífs Vestfjarða og uppbygging greinarinnar sé mikið hagsmunamál fyrir byggðina. Samkvæmt upplýsingum Vestfjarðastofu hafa á síðustu árum orðið til rúmlega 300 ný störf við eldi og afleidd störf á sunnanverðum Vestfjörðum.

„Svona fjárfesting skiptir miklu máli fyrir lítið svæðisbundið hagkerfi og vinnusóknarsvæði sem sunnanverðir Vestfirðir eru, enda er oftast talað um sunnanverða Vestfirði sem eitt atvinnusvæði. Hagvöxtur á Vestfjörðum hefur verið lítill og opinberar tölur hafa sýnt stöðnun og samdrátt á svæðinu,“ segir Bryndís. „Það er mikil bjartsýni hér og okkur finnst allt vera að gerast.“

Sigurður segir að rúmlega 30 manns hafi starfað við byggingarframkvæmdirnar þegar mest var. Framkvæmdirnar sköpuðu um 45 milljónir króna í útsvarstekjur hjá Tálknafjarðarhreppi. Þá voru á árunum 2015-2018 keypt aðföng og þjónusta frá innlendum birgjum fyrir um 424 milljónir króna.

„Með stöðinni verða til 15 heilsársstörf á Tálknafirði sem mun fjölga í 25 manns á annatíma við seiðaútsetningar á sumrin. Fyrirtækið er stærsti atvinnurekandinn í bæjarfélaginu,“ segir Sigurður.

„Við áætlum að starfsemin skapi um 16 milljónir króna í útsvars­tekjur á ári fyrir sveitarfélagið. Að auki er aðkeypt þjónusta og aðföng áætluð 320 milljónir króna á ári. Þess utan eru önnur aðfangakaup, t.d. kaup á hrognum og fljótandi súrefni,“ segir Sigurður.

Heildarfjöldi starfsmanna Arctic Fish í land- og sjóeldi á Vestfjörðum er á sjöunda tug. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru á Ísafirði en nýja landeldisstöðin í botni Tálknafjarðar er grunnurinn að starfseminni. Seiðin eru alin áfram í sjóeldisstöðvum fyrirtækisins í Dýrafirði, Patreksfirði og Tálknafirði. Seiðaeldisstöðin er byggð með mögulega stækkun í huga þegar ný eldisleyfi fást.