Svokallað útboðsgjald sem ríkið tekur vegna innflutnings á kjöti og ostum hefur hækkað svo mikið frá því í desember 2019 að nánast er hægt að tala um stökkbreytingu.

Þetta má lesa úr tölum sem taka til desember 2019 til desember á þessu ári. Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, bendir á að á þessu tímabili hafi útboðsgjald fyrir kíló af nautakjöti rúmlega tvöfaldast, tæplega þrefaldast fyrir svínakjöt og ríflega tvöfaldast í alifuglakjöti. Útboðsgjald fyrir kíló af elduðum kjötvörum hafi þrefaldast.

Tollkvóti er heimild til að flytja inn takmarkað magn af tiltekinni vöru án tolla. Samið var um gagnkvæma tollkvóta við Evrópusambandið árið 2015. Íslenska ríkið hefur boðið upp kvótana hér.

„Í raun hefur íslenska ríkið samið um að fella niður einn skatt á takmörkuðu magni af vörunum, það er innflutningstollinn, en leggur á þær annan skatt, útboðsgjaldið,“ segir Ólafur Stephensen. Fyrrnefndar hækkanir á útboðsgjaldinu síðustu ár þýði verðhækkanir upp á hund­ruð króna á kíló. Það bitnar beint á neytendum.

Ein ástæðan fyrir hækkun útboðsgjaldins er að sögn Ólafs framganga innlendra framleiðenda búvara, sem bjóði hátt í kvóta.

„Tveimur fyrirtækjum, LL42, dótturfélagi Stjörnugríss, og Mata, systurfélagi Ali og Matfugls, tekst þannig að ná til sín 92,5 prósentum af öllum svínakjötskvótanum og 60 prósentum af kvóta fyrir alifuglakjöt ræktuðu með hefðbundnum hætti,“ segir Ólafur og bendir á að í þessum tveimur kjöttegundum, svína- og alifuglakjöti, sé útboðsgjaldið ásamt fjármagnskostnaði nú í mörgum tilvikum orðið álíka hátt og fullur tollur af viðkomandi vörum.

„Ástæðan fyrir því að innlendir framleiðendur leika þennan leik er að með því að ná til sín stórum hluta kvótans geta þeir hindrað samkeppni við eigin vörur og stjórnað verðinu,“ segir Ólafur.

Þá rifjar Ólafur upp að í ágúst síðastliðnum hafi Félag atvinnurekenda, í bréfi til Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra, hvatt til breytinga á útboðskerfinu, þannig að horfið yrði frá útboðunum og fundnar aðrar aðferðir til að úthluta tollkvótunum. Jafnframt yrði tekið á ofangreindum vinnubrögðum innlendra framleiðenda. Breyting á útboðskerfinu sem tók gildi í byrjun árs 2020 og hafi átt að stuðla að lækkun útboðsgjalds, hafi augljóslega ekki virkað.

„Einu viðbrögð ráðuneytisins við þessu erindi voru að fækka toll­kvóta­útboðum úr þremur á ári í tvö og vonaðist ráðuneytið til að það myndi stuðla að lækkun á útboðsgjaldinu. Það er augljóslega ekki að virka miðað við hækkanirnar í þessu útboði frá því síðasta,“ segir Ólafur.

Stjórnvöld og búvöruframleiðendur eru að sögn Ólafs í sameiningu að eyðileggja samkeppnina sem samningur við Evrópusambandið hafi átti að búa til á íslenskum matvörumarkaði.

„Af hálfu stjórnvalda hefur útboðsfyrirkomulagið beinlínis verið lagt upp sem verndaraðgerð fyrir innlenda landbúnaðarframleiðslu og innlendir framleiðendur verða æ snjallari í að spila á kerfið til að spilla fyrir samkeppni,“ segir Ólafur, sem kveður Félagi atvinnurekenda hafa borist vísbendingar um að innlendir kjöt- og mjólkurvöruframleiðendur hafi stundað það að bjóða í tollkvóta fyrir ost og flytja hann svo ekki inn. Það dragi úr framboðinu.

„Við höfum sent Samkeppniseftirlitinu ábendingu um þessa viðskiptahætti. Þá höfum við átt fund með framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til að benda á það hvernig íslensk stjórnvöld ganga að okkar mati á bak samningsskuldbindingum sínum. Þeim fannst þetta athyglisverðar upplýsingar,“ segir framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.