„For­seta gengur illa að halda mönnum við ræðu­tíma, hvort sem eru þing­menn eða ráð­herrar,“ sagði for­seti Al­þingis Stein­grímur J. Sig­fús­son eftir ó­undir­búna fyrir­spurn Rósu Bjarkar Brynjólfs­dóttur, þing­manns Sam­fylkingarinnar, og svar Ás­laugar Örnu Sigur­björns­dóttur dóms­mála­ráð­herra. Báðum var þeim nokkuð heitt í hamsi og fóru langt fram yfir ræðu­tíma sinn svo for­setinn varð að reyna að kæfa niður mál þeirra með þing­bjöllunni. Rósa bað ráð­herrann um skýr svör um það hvernig ríkis­stjórnin hygðist bregðast við dómi Mann­réttinda­dóm­stólsins í Lands­réttar­málinu fyrir þremur vikum og sakaði Áslaugu um að hunsa íslensk lög um mann­réttinda­sátt­mála Evrópu.

„Nú þegar tæpar þrjár vikur eru liðnar frá dómi yfir­deildar Mann­réttinda­dóm­stóls Evrópu um að fjórir dómarar við Lands­rétt voru ó­lög­lega skipaðir bólar enn ekkert á við­brögð við dómnum af hálfu ríkis­stjórnarinnar.“ Svona hóf Rósa Björk fyrir­spurn sína til ráð­herrans í ó­undir­búnum fyrir­spurna­tíma á þinginu í dag. Hún sagði Ás­laugu hafa lýst því yfir í fjöl­miðlum að ó­þarfi sé að bregðast sér­stak­lega við dómnum því dómar Mann­réttinda­dóm­stólsins séu ekki laga­lega bindandi. Þar komi heldur fram á­bendingar.

Hún bar því næst upp spurningar sínar til dóms­mála­ráð­herra: „Hvað ætlar ríkis­stjórnin að gera í þeim at­riðum sem er að­kallandi að bregðast við? Hvernig á að fara með þau mál þar sem dómararnir fjórir sem voru ó­lög­lega skipar í dóminn dæmdu? Hver er staða dómaranna við Lands­rétt út frá mögu­leikum á endur­upp­töku mála þeirra? Hvað ætlar ráð­herrann að gera í málum þess dómara sem enn hefur ekki verið skipaður í dóminn og hvernig eiga þau sem eru að sækja um dómara­em­bættið, sem nú er laust í Lands­rétti, að geta treyst því að ferlið sé full­kom­lega fag­legt? Og síðast en ekki síst: hver er réttur sak­borninga? Hvað ætlar ríkið að gera gagn­vart þeim rétti?“

Rósa Björk gekk til liðs við þing­flokk Sam­fylkingarinnar í gær. Hún sagði sig úr þing­flokki Vinstri grænna í septem­ber en hafði síðan starfað sem þing­maður utan flokka þar til í gær.
Fréttablaðið/Stefán

Læra af niðurstöðunni?


Ás­laug sagði í svari sínu að niður­staða Mann­réttinda­dóm­stólsins gengi ekki framar ís­lenskum niður­stöðum „og það er ekki einu sinni þannig að niður­staðan bendi ein­hverju að ráðu­neytinu eða fram­kvæmdar­valdinu sem þarfnast breytingar“. Hún sagði þó ljóst að ýmis­legt mætti læra af dómnum og að ráðu­neyti hennar lægi nú yfir dómnum til að greina og skoða hvað hægt sé að gera betur í skipan dómara í heild sinni.

„En síðan spyr hátt­virtur þing­maður hvað eigi að gera við þá dóma. Það er á verk­sviði endur­upp­töku­dóm­stóls sem við höfum komið á fót og það geta allir leitað réttar síns fyrir endur­upp­töku­dóm­stól og óskað eftir endur­upp­töku mála,“ sagði hún.

Rósa fór þá í pontu öðru sinni og var þá nokkuð heitt í hamsi. „Herra for­seti. Svar hæst­virts dóms­mála­ráð­herra við þessum spurningum mínum er hrein­lega von­brigði.“ Hún sagði Ís­land verða að lúta niður­stöðu Mann­réttinda­dóm­stólsin eftir að texti mann­réttinda­sátt­málans var lög­festur í heild sinni í ís­lensk lög. „Það er graf­alvar­legt ef dóms­mála­ráð­herra Ís­lands kemur hér upp og hunsar hrein­lega 46. grein ís­lenskra laga um mann­réttinda­sátt­mála Evrópu og segir að hér þurfi bara að læra af niður­stöðu dóm­stólsins. Læra af niður­stöðunni? Við eigum ekki að taka það til okkar, við ætlum bara að læra af þessu.“

Það var þá sem ræðu­tími hennar rann út og for­seti þingsins klingdi bjöllunni. Rósa hélt á­fram: „Hún talar hér um endur­upp­töku­dóm­stólinn. Hann er ekki einu sinni kominn til starfa. En við ætlum að læra af þessu öllu saman og við ætlum kannski bara að fá þessar sendingar frá Strass­borg eins og fyrr­verandi dóms­mála­ráð­herra talaði um.“ Hún komst ekki mikið lengra fyrir glimrandi þing­bjöllunni og orðum for­setans: „Ég bið hátt­virta þing­menn að fara ekki hátt í mínútu fram yfir ræðu­tíma.“

Kennir Alþingi um tafir á stofnun endurupptökudómstóls

Ás­laug svaraði því þá að hún skildi ekki hvernig Rósa vildi hlíta dómnum. Hann kvæði að­eins á um að grípa þyrfti til al­mennra ráð­stafana til að leysa úr þeim vand­kvæðum sem hann skapaði og koma í veg fyrir frekari brot. „Það hefur þegar verið gert.“ Á meðan ráð­herrann talaði mátti heyra köll Rósu úr þing­sal.

„Dómurinn skapar engin vand­ræði sem ekki þegar er búið að leysa nema gagn­vart einum dómara og dómarar dæma sjálfir um sitt hæfi og eðli­legt að hann fái tæki­færi til að meta stöðuna,“ hélt Ás­laug á­fram. „Og ég velti því fyrir mér hvort hátt­virtur þing­maður geti nefnt hvað á að gera? Hvað á ráð­herra að gera að mati hennar? Að stíga inn í hæfi dómara? Og endur­upp­töku­dóm­stóll; [honum] er komið á fót. Það er verið að klára að skipa hann.“ Hún sagði þá að það væri Al­þingi að kenna að hann væri ekki enn kominn til starfa því það hefði verið lengi að kjósa í hæfnis­nefnd sem skipar dómara hans.

Þegar þar var komið sögu í ræðu ráð­herrans var ræðu­tíminn liðinn fyrir nokkru og var for­seti þingsins farinn að klingja bjöllunni. Hann á­minnti svo ráð­herrann og þing­manninn fyrir að virða ekki ræðu­tíma sinn.