Unnur Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Íslenskri erfðagreiningu og forseti Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands, var útnefnd áhrifamesta vísindakona Evrópu og sú fimmta áhrifamesta í heiminum á nýjum lista sem vefurinn Research.com tók saman.

Listinn byggist á greiningu á rannsóknaframlagi yfir 160 þúsund vísindakvenna en þetta er í fyrsta sinn sem listi yfir fremstu vísindakonur heims er gefinn út. Unnur er eina íslenska konan á listanum að þessu sinni.

Listinn yfir bestu vísindakonur heims byggist á upplýsingum úr gagnabönkunum Google Scholar and Microsoft Academic Graph. Alls voru upplýsingar um vísindastörf yfir 166 þúsund vísindakvenna á 24 fræðasviðum skoðaðar við vinnslu listans .

Fram kemur á Research.com að tilvitnanir í rannsóknir sem Unnur hefur komið að eru hátt í 190 þúsund og birtingar hennar rúmlega 460 á því tímabili sem liggur til grundvallar listanum.

Það skilar henni í fimmta sæti á lista yfir fremstu vísindakonur heims og í fyrsta sæti meðal vísindakvenna í Evrópu sem fyrr segir. Unnur Þorsteinsdóttir er jafnframt eina íslenska vísindakonan sem kemst á listann að þessu sinni.

Unnur hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir störf sín og fékk meðal annars riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag á vettvangi erfðarannsókna og vísinda árið 2017.