Þær Valgerður Kehinde Reynisdóttir, Kristín Taiwo Reynisdóttir og Anna María Allawawi Sonde stofnuðu fyrr á þessu ári reikninginn Antirasistarnir á Instagram þar sem þær fræða fólk um rasisma á Íslandi og segja frá sinni upplifun af honum. Þær hlutu í vikunni norræn frumkvöðlaverðlaun, Pioneer Prize, ásamt þremur öðrum og hálfa milljón í verðlaun.

Þær stefna á að nota peninginn til að byrja með hlaðvarp sem verður aðgengilegt á Spotify auk þess sem þær eru að skoða að taka það upp og birta líka á YouTube.

„Við fengum að vita það með símtali þann 10. september að við hefðum unnið og að við mættum ekki segja neinum frá því,“ segir Kristín.

Viðtal við þær birtist í Fréttablaðinu þann 21. ágúst þar sem þær sögðu frá verkefninu og hvað þeim langar að gera með það. Þær segja að viðbrögðin við viðtalinu hafi verið vonum framar.

„Frá öllum aldurshópum. Sem er mjög gaman. Við vöknuðum um morguninn og þegar við kíktum á Instagram voru 40 nýir fylgjendur á tíu mínútum og við vorum í smá stund að átta okkur á því af hverju það var,“ segir Anna María og hlær.

Instagram/Skjáskot

Dagur stoltur fylgjandi

Þær eru staddar í Kaupmannahöfn sem stendur en þær tóku formlega við verðlaununum í sænska sendiráðinu í Kaupmannahöfn í gær.

Kristín segir að þær hafi lent í Kaupmannahöfn á miðvikudaginn. Þær hafi hitt hina verðlaunahafana og svo í gær, fimmtudag, var athöfnin haldin. Þær byrjuðu daginn á að borða hádegismat með sænska sendiherranum, tóku svo myndir og svo byrjaði athöfnin.

Í dómnefndinni frá Íslandi voru þau Logi Pedro Stefánsson, tónlistarmaður, og Elísabet Brynjarsdóttir, hjúkrunarfræðingur og mannréttindaaktivisti, sem kynntu verkefni stelpnanna áður en þeim voru afhent verðlaunin.

„Við fengum kveðju frá Degi B. Eggertssyni. Það fengu allir kveðju frá einhverjum frægum í þeirra landi og það var Dagur sem sendi okkur kveðjur,“ segir Kristín.

Instagram/Skjáskot

Í kveðjunni segir Dagur að Reykvíkingar séu afar stoltir af stelpunum og verkefninu þeirra. Hann hrósaði hugrekki þeirra að stíga fram með sínar eigin sögur og þannig fengið fólk til að skilja betur rasisma á Íslandi.

„Þið eruð með marga fylgjendur og leiðið vegferðina fyrir ungt fólk til að ræða þessi mál og gera heiminn, eða að minnsta kosti Reykjavík, betri. Ég segi þetta sem stoltur fylgjandi ykkar á Instagram. Takk fyrir,“ sagði Dagur í myndbandskveðju sem spiluð var á athöfninni.

Upptaka af athöfninni er aðgengileg hér að neðan og þar má sjá kveðjuna auk þess sem þær Valgerður, Anna María og Kristín þakka einnig fyrir sig og svara spurningum frá gestum á athöfninni.

Byrjað er að fjalla um þeirra verkefni á 37:28.

Hægt er að kynna sér verðlaunin og hina verðlaunahafana hér.