Hjónin Joe og Jess Thwaite duttu heldur betur í lukku­pottinn á dögunum þegar þau unnu stærsta lottó­vinning í sögu Bret­lands.

Um var að ræða 184 milljóna risa­pott í EuroMilli­ons-lottóinu en upp­hæðin sam­svarar 30 milljörðum króna.

Vinnings­hafarnir voru af­hjúpaðir við há­tíð­lega at­höfn í Bret­landi í morgun. Joe er verk­fræðingur en Jess rekur hár­greiðslu­stofu og hafa þau verið gift í ellefu ár.

Þau eiga tvö börn, tví­bura sem eru átta ára, og býr fjöl­skyldan í nokkuð reisu­legu húsi í Cotswolds í Eng­landi og eru þau meðal annars með hesta og hænur í garðinum. Út­drátturinn fór fram þann 10. maí síðast­liðinn og voru þau ein með allar tölurnar réttar í út­drættinum.

Í við­tali við breska fjöl­miðla segja hjónin að fjár­hagur þeirra hafi ekki verið svo slæmur áður en þau duttu í lukku­pottinn. Þau, eins og aðrir, hafi þó fundið fyrir á­hrifum far­aldursins.

Joe var ekki að æsa sig þegar hann opnaði National Lottery-appið í símanum sínum og sá að hann hafði unnið þann stóra. Jess var sofandi við hliðina á honum í rúminu að kvöldi 10. maí og segist Joe hafa farið rak­leitt á fast­eigna­vef­síður til að skoða á­lit­legar eignir.

„Ég vissi ekkert hvað ég átti að gera. Ég gat ekki farið að sofa og vildi heldur ekki vekja Jess, þannig að ég lá þarna í ein­hvern tíma sem eftir á að hyggja var eins og heil ei­lífð.“

Joe, sem er 49 ára, sagði að hann hefði á­kveðið að segja upp starfi sínu og ein­beita sér að á­huga­málunum. Hann á tvö börn úr fyrra hjóna­bandi, 22 og 20 ára, og eru þau bú­sett hjá móður sinni. Jess er 44 ára og segist hún ekki hafa gert upp við sig hvort hún ætli að setjast í helgan stein.