Hjónin Joe og Jess Thwaite duttu heldur betur í lukkupottinn á dögunum þegar þau unnu stærsta lottóvinning í sögu Bretlands.
Um var að ræða 184 milljóna risapott í EuroMillions-lottóinu en upphæðin samsvarar 30 milljörðum króna.
Vinningshafarnir voru afhjúpaðir við hátíðlega athöfn í Bretlandi í morgun. Joe er verkfræðingur en Jess rekur hárgreiðslustofu og hafa þau verið gift í ellefu ár.
Þau eiga tvö börn, tvíbura sem eru átta ára, og býr fjölskyldan í nokkuð reisulegu húsi í Cotswolds í Englandi og eru þau meðal annars með hesta og hænur í garðinum. Útdrátturinn fór fram þann 10. maí síðastliðinn og voru þau ein með allar tölurnar réttar í útdrættinum.
Í viðtali við breska fjölmiðla segja hjónin að fjárhagur þeirra hafi ekki verið svo slæmur áður en þau duttu í lukkupottinn. Þau, eins og aðrir, hafi þó fundið fyrir áhrifum faraldursins.
Joe var ekki að æsa sig þegar hann opnaði National Lottery-appið í símanum sínum og sá að hann hafði unnið þann stóra. Jess var sofandi við hliðina á honum í rúminu að kvöldi 10. maí og segist Joe hafa farið rakleitt á fasteignavefsíður til að skoða álitlegar eignir.
„Ég vissi ekkert hvað ég átti að gera. Ég gat ekki farið að sofa og vildi heldur ekki vekja Jess, þannig að ég lá þarna í einhvern tíma sem eftir á að hyggja var eins og heil eilífð.“
Joe, sem er 49 ára, sagði að hann hefði ákveðið að segja upp starfi sínu og einbeita sér að áhugamálunum. Hann á tvö börn úr fyrra hjónabandi, 22 og 20 ára, og eru þau búsett hjá móður sinni. Jess er 44 ára og segist hún ekki hafa gert upp við sig hvort hún ætli að setjast í helgan stein.