„Því miður er ein­faldast að segja að allt sé í frosti og full­kominni ó­vissu með verk­efni og tekjur fjölda fé­lags­manna okkar,“ segir Jakob Tryggva­son, for­maður Fé­lags tækni­fólks í raf­iðnaði.

Fé­lagið fram­kvæmdi könnun meðal fé­lags­manna sinna á dögunum þar sem spurt var út í á­hrif sam­komu­banns á af­komu þeirra. Það er skemmst frá því að segja að á­hrifin eru mikil; tekjur helmings sjálf­stætt starfandi tækni­fólks í miðlun og skapandi greinum dragast saman um 70 til 100% vegna beinna á­hrifa sam­komu­bannsins. Á­hrifin á fast­ráðna starfs­menn eru líka mikil en um helmingur býr við skert starfs­hlut­fall og segja níu af hverjum tíu að það hafi mikla kjara­skerðingu í för með sér.

Ekkert að gera í dag

Jakob segir að dæmi séu um fólk sem vann 50 til 60 tíma á viku í febrúar og mars en hefur ekkert að gera nú þegar leik­hús eru lokuð og tón­leikum, árs­há­tíðum, ráð­stefnum og í­þrótta­við­burðum hefur verið frestað.

Í til­kynningu sem fé­lagið sendi frá sér kemur fram að tækni­fólk í miðlun og skapandi greinum séu til dæmis hljóð­menn og ljósa­menn í leik­húsum, á tón­leikum, við út­sendingar frá kapp­leikjum og í­þrótta­mótum, í kvik­mynda­gerð og á hvers kyns sam­komum. Fé­lags­menn sinna líka for­ritun, kerfis­stjórnun, vef­um­sjón og mörgu fleiru.

Jakob segir að margir fé­lags­menn hefðu vænst vinnu og tekna í ár við gerð sjón­varps­þátta og kvik­mynda þar sem er­lent fjár­magn kæmi við sögu. Slík verk­efni eru í bið­stöðu og er ó­mögu­legt að segja til um hvað úr verður eða hve­nær.

Óttast langtímaáhrifin

„Hópur tækni­fólks í skapandi greinum af ýmsu tagi er stór og stækkar ár frá ári. Hann er nánast ó­sýni­legur í störfum sínum en ó­missandi við að miðla alls kyns efni á sam­komum, í fjöl­miðlum, með streymis­veitum og á annan hátt. Þessi at­vinnu­starf­semi er til­tölu­lega ung og ég óttast að þessar ó­trú­legu ham­farir á hefð­bundnum vinnu­markaði okkar fólks leiði til þess að margir sjái ekki annan kost en að hverfa úr fag­greinum sínum og snúa sér að ein­hverju öðru,“ segir Jakob í til­kynningunni.

Hann segir að þær tíma­bundnu ráð­stafanir á vinnu­markaði sem stjórn­völd hafa gripið til séu vissu­lega til bóta. „En ég óttast mjög lang­tíma­á­hrif á­standsins,“ segir hann.