Minnst hundrað eru látnir af völdum kórónaveirunnar sem hefur nú breiðst til fjórtán landa. Í fyrradag voru staðfest smit yfir 2.800 talsins en í gær voru staðfest tilfelli 4.600. Búið er að loka 17 borgum í Kína, þar á meðal Wuhan þar sem veiran gerði fyrst vart við sig í kringum áramótin. Í gær var búið að staðfesta tilfelli í Þýskalandi, Frakklandi og Ástralíu.

Engin tilfelli hafa verið staðfest á Íslandi, en almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, í samvinnu við sóttvarnalækni, hefur lýst yfir óvissustigi. Óvissustig þýðir að fastmótað samráð verður viðhaft samkvæmt fyrirliggjandi við­bragðs­áætlunum, upplýsingamiðlun aukin og viðbragðsaðilar munu uppfæra sínar áætlanir.

Sóttvarnalæknir ráðleggur að fólk sleppi ónauðsynlegum ferðalögum til Kína. Eru þeir sem eru á ferðalögum erlendis hvattir til að forðast náið samneyti við einstaklinga sem líta út fyrir að vera með kvef.

Einkenni kórónaveirunnar, sem ber heitið 2019-nCoV, minna helst á kvef. Talið er að veiran dreifi sér með hósta eða snertingu og er óttast að einstaklingar geti smitað aðra í allt að tvær vikur áður en þeir verða varir við nokkur einkenni.

Eins og staðan er í dag er þessi veira ekki jafn skæð og HABL-veiran, sem er annað afbrigði kóróna­veiru, sem dreifði sér víða í byrjun aldarinnar. Sú veira breiddist ekki jafn hratt út og Wuhan-veiran, heldur tók það HABL nokkra mánuði að dreifast um heiminn. Alls smituðust um átta þúsund manns, af þeim létust 800 sem er mun hærra hlutfall en með Wuhan-veiruna.Staðan í dag er þó mun betri en árið 2003, en þá tók það rúma fimm mánuði að bera kennsl á veiruna, og talið er að þróun mótefnis taki mun skemmri tíma.

Samkvæmt stöðuskýrslu almannavarna er gert ráð fyrir að veiran komi hingað til lands. Gert er ráð fyrir að hægt verði að greina sýni hér á landi í þessari viku eða þeirri næstu.

Keyptu allar grímurnar í Byko

Í Asíu er lögð mikil áhersla á að vera með grímu fyrir vitum þegar farið er út á almannafæri vegna veirunnar. Nú þegar má sjá nokkra ferðamenn frá Asíu ganga með slíkar grímur í miðborg Reykjavíkur, fleiri en venjulega. Í vikunni mættu tveir hópar kín­verskra ferða­manna í verslun Byko í Breiddinni í Kópa­vogi og keyptu allar öndunar­grímur sem fengust í versluninni. Kristinn Jóns­son, deildar­stjóri hjá Byko, segir að annar hópurinn hafi líklega verið frá Wu­han og hafi verið á leiðinni heim.

Hagnýtur fróðleikur um veiruna

Hver eru einkennin?

Einkennin líkjast helst inflúensusýkingu, hósti, hiti og hálssærindi.

Hvað áttu að gera ef þú ert í útlöndum?

Huga að handþvotti, forðast náið samneyti við einstaklinga með kvefeinkenni og nota klút ef þú finnur fyrir kvefeinkennum.

Hvað áttu að gera ef þú telur að þú sért með smit?

Hringja í síma 1700.