Rauði kross Íslands fór í síðustu viku og gerði úttekt á aðstæðum og aðbúnaði flóttafólks á Ásbrú. Þar er bæði fólk búsett sem hefur sótt um alþjóðlega vernd og fólk sem hingað hefur komið frá Úkraínu og er með mannúðarleyfi.
„Já, við fórum í úttekt og tókum út aðstæður. Við getum tekið undir margt af því sem kemur fram í yfirlýsingu UN Women um aðbúnað fólks þarna,“ segir Brynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi Rauða krossins, og vísar í yfirlýsingu UN Women frá 13. maí þar sem samtökin sögðu að það virtist sem íslensk stjórnvöld væru að „vanrækja alvarlega skyldur sínar“ þegar kemur að því að tryggja vernd fólks á flótta, og þá sérstaklega kvenna.
Brynhildur segir að þau hafi sérstaklega haft áhyggjur af börnum sem eru á svæðinu en lítið er fyrir þau að gera. Rauði kross Íslands skilaði niðurstöðum úttektarinnar til félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins sem hefur útbúið 37 punkta plan sem nú er unnið að því að innleiða til að bæta aðstæður fólks á Ásbrú.
Ásbrú er hluti af gömlu herstöðinni í Reykjanesbæ og ber þess enn skýr merki. Byggingar eru merktar hernum og jafnvel að finna á svæðinu gamla herþotu sem sýnd er þar sem list. Í því húsnæði sem Útlendingastofnun hefur og þar sem flóttafólk hefur búsetu eru strangar reglur. Flóttafólkið má ekki taka á móti gestum, það má ekki taka myndir eða myndbönd án leyfis, ekkert áfengi eða önnur vímuefni eru leyfileg auk þess sem það má aðeins skrá sig í þvottavél tvisvar í viku.

Ungar stúlkur eru að flýja á milli herbergja og jafnvel út úr húsinu vegna áforma stjórnvalda um að bæta ókunnugum herbergisfélögum í herbergi þeirra.
„Eldhúsin eru tóm, það vantar leirtau, potta og pönnur og engin rúmföt á staðnum. Ungar stúlkur eru að flýja á milli herbergja og jafnvel út úr húsinu vegna áforma stjórnvalda um að bæta ókunnugum herbergisfélögum í herbergi þeirra. Umsjónarmenn hafa verið að birtast fyrirvaralaust inn í herbergin til að kanna aðstæður fyrir nýja og ókunnuga herbergisfélaga,“ segir í yfirlýsingu UN Women.


Í svari ráðuneytisins til Fréttablaðsins um málið kemur fram að þau hafi bæði fengið ábendingar frá Rauða krossinum og frá prestum Keflavíkurkirkju í kjölfar yfirlýsingar UN Women. Þar kemur enn fremur fram að samhljómur hafi verið á milli ábendinga presta og úttektar Rauða krossins og að til að bregðast skjótt við hafi félags- og vinnumarkaðsráðuneytið unnið tímasetta aðgerðaáætlun um nauðsynlegar úrbætur og var þegar í stað brugðist við þeim allra brýnustu auk þess sem öðrum atriðum var forgangsraðað eftir mikilvægi.
Þá kemur fram í svari ráðuneytisins að fyrrnefndur framkvæmdahópur muni hafa eftirlit með að úrbætur nái fram að ganga og bæði framkvæmda- og stýrihópur munu á næstunni heimsækja búsetuúrræðin til að ganga úr skugga um að lagfæringar hafi verði gerðar.
