Utan­ríkis­ráðu­neytið greindi frá því í gær að sjö ís­lenskir ríkis­borgarar eru nú staddir í Kabúl í Afgan­istan. Um er að ræða annars vegar tvo ein­stak­linga sem starfa á vegum At­lants­hafs­banda­lagsins og hins vegar fjöl­skyldu sem er í Afgan­istan á eigin vegum á­samt börnum sínum.

Sveinn H. Guð­mars­son, upp­lýsinga­full­trúi utan­ríkis­ráðu­neytisins, segir að verið sé að leita leiða til að koma þessum ein­stak­lingum úr landi.

„Annars vegar er um að ræða tvo ein­stak­linga sem starfa á vegum stofnana NATO, þannig þeir eru hluti af brott­flutningi At­lants­hafs­banda­lagsins úr landi. Hins vegar er fjöl­skyldan sem er á eigin vegum. Það er verið að kanna mögu­leikann á því að þau komist á­samt öðrum nor­rænum borgurum úr landi. Rétt eins og þegar kóróna­veirufar­aldurinn hófst þá gátu ís­lensk stjórn­völd sótt í borgara­þjónustu Norður­landanna, það er náttúr­lega öflugt og gott sam­starf á þeim vett­vangi,“ segir Sveinn.

Sveinn segir að mörg hundruð nor­rænir ríkis­borgarar séu nú staddir í Kabúl sem séu allir að reyna að komast aftur til sinna heima­landa.

Af hverju var ekki farið fyrr út í það að koma Ís­lendingunum úr landi í ljósi þess að vitað hefur verið af ógninni af mögu­legu valda­ráni Talí­bana í þó­nokkurn tíma?

„Í fyrsta lagi erum við ekki með skrá yfir alla Ís­lendinga sem eru er­lendis, þannig að við vitum ein­fald­lega ekkert alltaf af Ís­lendingum er­lendis fyrr en að­stæður koma upp sem knýja á um að þeir þurfi að komast burt. Með fólkið sem starfar hjá At­lants­hafs­banda­laginu, það er náttúr­lega kannski bara undir stofnuninni sjálfri komið að flytja sitt fólk úr landi og meta hve­nær það er tíma­bært.“

Að­spurður um hvort að Ís­lendingarnir séu taldir vera í hættu í Afgan­istan segist Sveinn ekki geta sagt ná­kvæm­lega til um það en vísar til þess hvernig á­standið í landinu er al­mennt.

„Það er bara hættu­legt. Stríðs­á­tök og það að það sé verið að flytja fólk úr landi, það er hægt að draga af því á­kveðnar á­lyktanir. En hvort að ein­staklingar séu í hættu sinna starfa vegna, ég get ekki sagt til um það,“ segir Sveinn.

Ef ekki tekst að ná fólkinu úr landi með fyrr­nefndum leiðum, verða þau þá bara á eigin vegum?

„Það er í rauninni ekki tíma­bært að spá neitt til um það. Það er bara for­gangs­at­riði núna að kanna mögu­leikana á því hvernig þau geta komist heilu á höldnu úr landi og það er það sem er fókus á núna.“

Sveinn segist búast við því að al­menningur verði upp­lýstur um það hvort takast mun að koma ein­stak­lingunum sjö heilum á húfi til Ís­lands.