Búið er að aflýsa nokkrum flugferðum til og frá Keflavíkurflugvelli í dag vegna veðurs. Þá hafa orðið tafir á fjölda flugferða. Farþegar í að minnsta kosti þremur flugvélum frá Delta, EasyJet og British Airwaves þurftu að bíða þess að komast úr vélunum vegna þess hve starkar vindhviðurnar eru við völlinn. 

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir í samtali við Fréttablaðið að til standi að hleypa farþegum frá borði von bráðar með stigabílum. Farþegar hafa þurft að sitja í flugvélunum síðan í morgun. 

„Landgöngubrýrnar og stigabílarnir voru teknir úr notkun vegna vindhraða, sem fer yfir 50 hnúta en samkvæmt mínum upplýsingum hafa stigabílarnir verið teknir í notkun,“ segir Guðjón í samtali við Fréttablaðið. 

Sem fyrr segir hefur orðið seinkun á öllu flugi á Keflavíkurflugvelli og að minnsta kosti sex flugferðum Icelandair var aflýst í morgun.

Flugvél Icelandair á leið frá New York til Íslands þurfti í morgun að lenda í Glasgow vegna veðursins, en Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir í samtali við Fréttablaðið að flugvélin sé nú á leið til landsins. 

Allt innanlandsflug liggur niðri vegna veðurs, en staðan verður endurmetin klukkan hálf þrjú síðdegis.