Með tilkomu neyslurýmisins verður einstaklingum sem sprauta sig í æð tryggður aðgangur að hreinum sprautum, nálaskiptum og gjaldfrjálsri grunnheilbrigðisþjónustu. Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Helga Hrafns Gunnarssonar, þingmanns Pírata.

„Ég hef rætt við borgarstjóra út af þessu máli og það eru í gangi samskipti milli ráðuneytisins og borgarinnar um þetta. Ég býst við því að þess sé ekki langt að bíða að þetta úrræði verði til,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Í svarinu kemur einnig fram að ráðherrann telji það samræmast illa hugmyndum um skaðaminnkun að það varði fangelsisrefsingu að vera fíkniefnaneytandi. Ráðherra stefnir að því að unnið verði áhættumat um reynslu annarra þjóða af afnámi refsinga við vörslu á neysluskömmtum. Niðurstöður áhættumatsins munu hafa áhrif á hvaða breytingar á lögum verða að veruleika.