Snemma á næsta ári stendur til að taka í gagnið Geðheilsumiðstöð barna hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH). Með miðstöðinni verður ýmis þjónusta sem veitt er í dag sameinuð.

Guðlaug Unnur Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri geðheilbrigðisþjónustu HH, segir að breytingarnar muni stuðla að styttri biðlistum ásamt því að auka meðferðarúrræði fyrir börn og unglinga með geðrænan vanda. „Þetta er styrking og útvíkkun í þjónustu við börn í svokallaðri annarrar línu þjónustu, sem er þjónusta mitt á milli þess að vera spítalaþjónusta og heilsugæsluþjónusta,“ segir Guðlaug.

Óskar Reykdalsson, forstjóri HH, segir klárlega þörf fyrir Geðheilsumiðstöð barna innan heilsugæslunnar.

„Við vonum að þetta verði til þess að við náum að sinna þessum börnum betur og þar af leiðandi hafa áhrif fyrir lífstíð. Þetta er svo mikilvægur tími í lífi þessara barna,“ segir Óskar.

Hann segir stærstu áskorunina núna vera að ráða fólk til starfa innan verkefnisins. Auglýst verði eftir forstöðumanni um næstu mánaðamót en áætlað sé að um 55 starfsmenn muni starfa við Geðheilsumiðstöðina.