„UNICEF á Íslandi lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu mála í norðurhluta Sýrlands og þeim átökum sem þar eru farin af stað,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, í tilkynningu frá samtökunum.

Samtökin skora á alla sem að átökunum koma að setja velferð og öryggi barna í algjöran forgang í samræmi við alþjóðlega mannréttindasáttmála og lög. Ljóst er að sprengjuárásir á byggðir munu setja börn í óásættanlega hættu og valda mannfalli.

„Það verður aldrei sagt nógu oft að börn í Sýrlandi bera enga ábyrgð á þessum stríðsátökum en eins og við vitum þá verða það fyrst og fremst þau sem munu þjást af þeirra völdum. Það er nóg komið af blóðbaði. Íslendingar eiga að segja stopp og saman getum við haft áhrif,“ segir Bergsteinn.

Tyrkneskir hermenn hófu í gær innrás sína í norðausturhluta Sýrlands í gær með loftárásum á borgir og bæi við landamæri Tyrklands og Sýrlands og hafið þar landhernað.

„Innrásin hefur verið fordæmd af þjóðarleiðtogum víðs vegar um heiminn og Tyrkir hvattir til að gæta ítrustu varúðar í aðgerðum sínum sem að sögn forseta landsins miða að því að ráða niðurlögum Íslamska ríkisins. UNICEF hefur ítrekað þá afstöðu sína að leitað verði friðsamlegra lausna til að leysa málin,“ segir að lokum.