Ungverjaland er fyrsta landið í Evrópusambandinu til að veita rússneska bóluefninu við Covid-19, Sputnik V, bráðabirgðaleyfi.
Starfsmannastjóri Viktors Orbán , forsætisráðherra Ungverjalands, staðfesti í dag að rússneksa bóluefnið og bóluefni AstraZeneca hafið fengið grænt ljós frá heilbrigðisyfirvöldum í landinu. BBC greinir frá.
Bólusetningar við Covid-19 með SputnikV hófust í Rússlandi þann 5. desember, yfirvöld í Rússlandi halda því fram að virkni þess sé 95%. Bóluefnið hefur verið tekið í notkun í nokkrum löndum en Ungverjaland er sem fyrr segir fyrsta landið innan Evrópusambandsins til að veita því leyfi.
Utanríkisráðherra Ungverjalands, Peter Szijjarto er á leið til Mosku til frekari viðræðna um afhendingu og dreifingu efnisins.
Starfsmenn ungverska heilbrigðisráðuneytisins eru einnig í Bejing til að ræða við kínversk yfirvöld um leyfi og afhendingu á yfir milljón skömmtum af bóluefninu Sinopharm. Kínverjar gáfu út bráðabirgðaleyfi fyrir bóluefni Sinopharm þann 31. desember síðastliðinn. Prófanir á því leiddu í ljós að meðalvirkni þess gegn veirunni er nokkru minni en bóluefnisins sem Pfizer og BioNTech þróuðu. Eigi að síður er talið, að að notkun þess eigi eftir að skipta sköpum í baráttunni gegn faraldrinum í Kína og víðar í Asíu.
Ungverjar ekki spenntir
Viktor Orbán segir að eina leiðin til að mæta eftirspurn Ungverjalands um bólusetningar sé að kaupa bóluefni frá Rússlandi og Kína vegna þess hversu hægt gengur að fá skammta frá Pfizer. Greint var frá því í síðustu viku að Pfizer hafi tilkynnt nokkrum þjóðum innan Evrópu að færri skammtar af bóluefninu yrðu væntanlegir á næstu misserum vegna endurskipulagningar.
Að minnsta kosti 140 þúsund Ungverjar hafa nú þegar verið bólusettir gegn Covid-19 með bóluefni Pfizer og Moderna. Ákvörðun stjórnvalda að veita rússnesku og kínversku bóluefnunum markaðsleyfi í Ungverjalandi hefur nú þegar mætt andstöðu meðal íbúa. Skoðanakannanir leiða í ljós að aðeins um 7% Ungverja myndu láta bólusetja sig með Sputnik V og aðeins um 1% með kínverska bóluefninu.