Fram kemur í nýrri loftslagsskýrslu Sameinuðu þjóðanna (SÞ) að loftslagsváin hafi stigmagnast árið 2020. Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri SÞ, segir niðurstöðu skýrslunnar verða að vekja leiðtoga heimsins af værum blundi.

„Það er þungur tónn í skýrslunni sem maður ætlast til að stjórnvöld um allan heim taki alvarlega. Ég geri það svo sannarlega. Ég hef barist fyrir efldum aðgerðum, hertum markmiðum og auknu fjármagni til málaflokksins. Við höfum einmitt tekið stór skref hvað þetta allt varðar á kjörtímabilinu og erum byrjuð að sjá árangur af aðgerðum í minni losun Íslands, sem er gríðarlega jákvætt,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra.

Um hvatningu Guterres um að þjóðir heims stefni á 45% samdrátt 2030 og kolefnishlutleysi 2050 segir Guðmundur Ingi: „Ég tek auðvitað undir þessi skilaboð en ítreka að Ísland vill gera enn betur. Við höfum sett okkur markmið um 55% samdrátt í samfloti með ESB og Noregi árið 2030 og nýlega mælti ég fyrir lagafrumvarpi sem kveður á um lögfestingu markmiðsins um kolefnishlutleysi árið 2040.“