Suðurkóresku þættirnir Squid Game hafa notið gríðarlegra vinsælda undanfarnar vikur og eru þeir nú þegar orðnir þeir langvinsælustu í sögu Netflix.
Þættirnir segja frá hópi fólks sem glímir við ýmis vandamál í einkalífinu og þarf að leysa þrautir í þeirri von að vinna dágóða fjárhæð. Margir hafa reynt að leika þessar þrautir eftir og sýna frá því á samfélagsmiðlum, TikTok til dæmis. Þættirnir eru stranglega bannaðir börnum en þrátt fyrir það virðast þeir njóta vinsælda meðal yngri kynslóðarinnar.
Ein þeirra þrauta sem þátttakendur reyna að leysa er að skera út svonefndar Dalgona-kökur, eða vaxkökur, í ákveðin form. Mynstur er búið til í kökuna með piparkökuformi og þegar búið er að baka kökurnar eiga þátttakendur að reyna að skera mynstrin út án þess að kakan brotni. Eins og þeir sem hafa séð Squid Game vita getur það reynst þrautin þyngri.
Telegraph og Mail Online sögðu á dögunum frá máli fjórtán ára drengs, Aiden Higgie, sem freistaði þess að leika þrautina eftir á heimili sínu í Sydney í Ástralíu. Það tókst ekki betur til en svo að hann hlaut þriiðja stigs brunasár á fætinum og slæm brunasár á höndinni.
Aiden fann uppskrift að vaxkökunum á TikTok og blandaði saman vatni, matarsóda og sykri í plastglas. Hann ætlaði svo að hita blönduna upp í örbylgjuofninum – eins og leiðbeiningarnar sögðu til um – en ekki vildi betur til en svo að glasið sprakk þegar hann tók glasið út. Hann fékk brennheita blönduna yfir sig og hlaut slæm brunasár í kjölfarið.
Móðir hans, Helen, segir að Aiden hafi fengið djúp brunasár og einhverjar taugaskemmdir. Aiden er á batavegi en ljóst er að langur tími mun líða þar til sárin gróa og verður hann með ör það sem eftir er.
Telegraph hefur eftir Aiden að hann hafi viljað prófa áskorunina eins og fjölmargir aðrir, þar á meðal vinir hans. Hann hvetur þó þá sem hyggjast láta reyna á hana að gera það undir handleiðslu foreldra eða forráðamanna.