Suður­kóresku þættirnir Squ­id Game hafa notið gríðar­legra vin­sælda undan­farnar vikur og eru þeir nú þegar orðnir þeir lang­vin­sælustu í sögu Net­flix.

Þættirnir segja frá hópi fólks sem glímir við ýmis vanda­mál í einka­lífinu og þarf að leysa þrautir í þeirri von að vinna dá­góða fjár­hæð. Margir hafa reynt að leika þessar þrautir eftir og sýna frá því á sam­fé­lags­miðlum, TikTok til dæmis. Þættirnir eru strang­lega bannaðir börnum en þrátt fyrir það virðast þeir njóta vin­sælda meðal yngri kyn­slóðarinnar.

Ein þeirra þrauta sem þátt­tak­endur reyna að leysa er að skera út svo­nefndar Dal­gona-kökur, eða vax­kökur, í á­kveðin form. Mynstur er búið til í kökuna með pipar­köku­formi og þegar búið er að baka kökurnar eiga þátt­tak­endur að reyna að skera mynstrin út án þess að kakan brotni. Eins og þeir sem hafa séð Squ­id Game vita getur það reynst þrautin þyngri.

Telegraph og Mail Online sögðu á dögunum frá máli fjór­tán ára drengs, Ai­den Higgi­e, sem freistaði þess að leika þrautina eftir á heimili sínu í S­yd­n­ey í Ástralíu. Það tókst ekki betur til en svo að hann hlaut þri­iðja stigs bruna­sár á fætinum og slæm bruna­sár á höndinni.

Ai­den fann upp­skrift að vax­kökunum á TikTok og blandaði saman vatni, matar­sóda og sykri í plast­glas. Hann ætlaði svo að hita blönduna upp í ör­bylgju­ofninum – eins og leið­beiningarnar sögðu til um – en ekki vildi betur til en svo að glasið sprakk þegar hann tók glasið út. Hann fékk brenn­heita blönduna yfir sig og hlaut slæm bruna­sár í kjöl­farið.

Móðir hans, Helen, segir að Ai­den hafi fengið djúp bruna­sár og ein­hverjar tauga­skemmdir. Ai­den er á bata­vegi en ljóst er að langur tími mun líða þar til sárin gróa og verður hann með ör það sem eftir er.

Telegraph hefur eftir Ai­den að hann hafi viljað prófa á­skorunina eins og fjöl­margir aðrir, þar á meðal vinir hans. Hann hvetur þó þá sem hyggjast láta reyna á hana að gera það undir hand­leiðslu for­eldra eða for­ráða­manna.