Guð­mundur Ingi Þór­odds­son, for­maður Af­stöðu – fé­lags fanga á Ís­landi, rifjaði upp gamla ljós­mynd á Face­book sem var tekin árið 2004 af Jóni Sigurðs­­syni, fyrr­verandi deildar­­stjóra á Litla Hrauni.

„Ungur maður í blóma lífsins. Jæja, alla vega út­lits­­lega séð,“ skrifar Guð­mundur en ljós­myndin var tekin vegna þess að hann var að fá sér­stakt vega­bréf þess efnis að hann mætti vera frjáls maður i fjór­tán klukku­stundir hverja þrjá­tíu sem hann væri í af­plánun.

„Þá hafði ég af­­plánað 1/3 hluta af­­plánunar eða 4 ár. Slík um­bunun nefndist dags­­leyfi og eru til þess gerð að dóm­þolar styrki fjöl­­skyldu­bönd, þannig að þeir bíði eitt­hvað þegar þeir ljúka við greiðslu sína til sam­­fé­lagsins. Þetta er af­­skap­­lega mikil­­vægur þáttur í af­­plánun en engu að síður veita ís­­lensk stjórn­völd fæst leyfi af öllum löndum Evrópu. Það er önnur saga en engu að síður mikil­­væg að halda til haga,“ skrifar Guð­mundur.

„Á með­­fylgjandi ljós­­mynd er þrí­­tugur maður sem var dæmdur til að af­­plána 12 ára fangelsis­vist fyrir inn­flutning á vímu­efnum. Ég myndi aldrei gera lítið úr mínum þætti i málinu en lík­­lega yrði dómurinn tvö til þrjú ár í dag fyrir sama magn. Þá er ég full­viss um að ungi maðurinn á myndinni hefði farið aðra leið í af­­plánun sinni í fangelsis­­kerfi sem hæfir sam­­fé­lagi nú­­tímans. Ég tel víst að hann hefði ekki sleppt spilum sínum heldur haldið á þeim og leikið rétt úr,“ segir Guð­mundur.

Guðmundur árið 2004 þegar hann fékk sérstakt vegabréf eftir afplánun.
Ljósmynd/Facebook

Dómþolar þurfa menntun og starfsþjálfun

Guðmundur bendir á að frá alda­­mótum hefur margt breyst en engu að síður er sam­­fé­lagið enn að dæma fólk til langrar fangelsis­vistunar fyrir of­beldis­­lausa dóma.

„Það er mín bjarg­fasta skoðun að ef dæma á fólk til þess að dvelja um langt ára­bil þá verði að gera allt til þess að menntun, starfs­­þjálfun og styrking fjöl­­skyldu­banda sé höfði í fyrir­­rúmi þannig að dóm­þolar komi með tól og tæki úr af­­plánun en ekki ein­­göngu níð­­þungan bagga.“

Guð­mundur hefur árum saman barist fyrir bata í fangelsis­kerfinu og segir „heilu steypu­keri“ hafi verið sturtað yfir skoðanir Af­stöðu og mál­staðinn. Hann segist þó hafa átt í góðum sam­skiptum vFangelsis­mála­stofnun, undan­farin ár.

Skýrsla sem unnin var í sam­vinnu með for­stöðu­mann á­fanga­heimilisins Verndar um hvað betur mætti fara á Litla-Hrauni hafi skilað árangri.

„Stjórn­völd á­kváðu að setja marga milljarða í að endur­­bæta Litla-Hraun! Og þessir milljarðar eru brú þar til nýtt fangelsi verður byggt. Vonandi þarf ekki að rifja upp sögu bygginga fangelsa á Ís­landi fyrir nokkrum manni með sínum undan­þágum ár eftir ár og eftir ár.“

„Eðli­­legt við­hald og endur­­bætur eru eitt og ætti ekki að þurfa básúna um í fjöl­­miðlum. Við sem þekkjum til getum verið sam­­mála um að endur­­bóta sé þörf og að um sé að ræða nauð­­syn­­legar endur­­bætur sem hefði átt að vera búið að ráðast í fyrir mörgum árum. Ef það hefði verið eðli­­legt við­hald á Litla-Hrauni þyrfti ekki að glenna sig framan í mynda­­vélar og telja milljarðana á fingrum.“

Guð­mundur bendir á að þau lönd sem Ís­land ber sig saman við eru með endur­hæfingar­stefnu og það sé fram­tíðin.

„Það að loka fólk í litlum klefum til lengri tíma er for­­tíðar­hugsun sem þarf að eyða. Við eigum að læra af grann­­þjóðum okkar sem hafa sýnt það og sannað að þeir sem fara í gegnum opin úr­­ræði eru ó­­lík­­legri til að hljóta að nýju fangelsis­­dóm, það er bara stað­­reynd. Það er þess vegna sem fangelsin í Noregi líta út fyrir Banda­­ríkja­­mönnum sem sumar­búðir.“

Guðmundur vill jafna Litla-Hraun við jörðu og byggja opið fangelsi.

„Allir þeir sem hafa vit, þekkingu og reynslu á þessum annars gríðar­­lega á­huga­verða mála­­flokki horfa til opinna fangelsa. Hér á landi þarf ekki annað en að horfa til reynslunnar á Kvía­bryggju þar sem fyrrum vist­­menn hringja jafn­vel ára­tugum síðar og þakka fyrir sig. Við eigum ekki að halda í hand­ó­nýtt banda­rískt skapa­lón af ömurð sem fram­­leiðir frekar glæpa­­menn en fækkar, fjölgar brota­þolum og fjölgar starfs­­gildum hjá lög­­reglu, í stétt lög­manna og dómara. Hver heil­vita maður ætti að sjá í hendi sér að milljarðar af skatt­­fé sem fara í það að taka niður turninn á Litla-Hrauni munu ekki koma betra fólki inn í sam­­fé­lagið að nýju. Og um­­rædd brú verður visnuð ef ekki fallin þegar nýtt fangelsi rís.“

Guð­mundur segir að eftir sam­töl sín við nokkra verk­taka sé fýsi­legast að jafna Litla-Hraun við jörðu og nota þessa milljarða til að reisa þrjú þúsund fer­­metra opið úr­­ræði, því væri skipt niður í hluta fyrir al­­menna dóm­þola annars vegar og geð­fatlaða dóm­þola hins vegar, sem því miður er enn verið að dæma í fangelsi þrátt fyrir að allir viti að þar ættu þeir ekki að vera. Í fangelsinu á Hólms­heiði er nefni­­lega nóg pláss fyrir þá sem taldir eru þurfa dvelja í lokuðu fangelsi.

„Vissu­­lega eru til mjög fínar myndir af stjórn­­mála­­mönnum sem heim­­sótt hafa Litla-Hraun en það vantar þá sem til­­búnir eru að skoða málin í kjölinn og aldrei virðist það gerast að dóms­­mála­ráð­herrar hafi á­huga á þessum mála­­flokki. Það dugir nefni­­lega ekki að setja lítinn plástur á bein­brot og það dugir ekki að segja að það eigi að setja pening í fólkið en ekki steypu og setja svo alla peningana steypuna.“

Rekstur opinna fangelsa er mun ó­­­dýrari en rekstur lokaðra. Í þeim opnu má vinna með svo miklu meiri endur­­hæfingu og bata að það skilar alltaf betri sam­­fé­lags­þegnum út í lífið, skrifar Guð­mundur.

„Ég skora á ný stjórn­völd að hlusta á þá sem hafa raun­veru­­lega vit á mála­­flokknum, ekki okkur í Af­­stöðu heldur ná­granna­­ríki okkar og hvað þau hafa gert í fangelsis­­málum. Norsk stjórn­völd hafa að­­stoðað önnur ríki þegar kemur að því að taka upp endur­­hæfingar- og bata­­stefnu og í Austur-Evrópu hefur Evrópu­­sam­bandið styrkt ríki til að koma á slíkri stefnu,“ skrifar Guðmundur sem hefur fengið nóg af hjali og vill aðgerðir.

„Nefndir, starfs­hópar, starf­nefndir og stýri­hópar hafa ekkert gert nema þegið kaffi og bakk­elsi. Það er kominn tími til að stjórn­­mála­­flokkur rísi upp, skoði málið frá grunni, læri af reynslu annarra þjóða og gefi því fólki sem hrasar, missir sjónar af beinu brautinni eða hrein­­lega leiðist út í glæpi vegna að­­stæðna. Ís­land getur gefið tæki­­færi en á meðan það felst í milljarða fram­­kvæmd við brú þá er ljóst að þeir sem þurfa á hjálp að halda munu halda sig undir brúnni.“