Hinn 23 ára gamli grunn­skóla­kennari Ashling Murp­hy var að skokka við síki í ná­grenni bæjarins Tullamor­e í Ír­landi síð­degis í miðvikudag er ráðist var á hana með þeim af­leiðingum að hún lést af sárum sínum. Dóms­mála­ráð­herra landsins segir morðið „sannar­lega sláandi glæp“.

Tvær konur urðu vitni að hluta á­rásarinnar, sáu hinn grunaða flýja af vett­vangi og kölluðu til lög­reglu. Maðurinn var hand­tekinn skömmu síðar. Sam­kvæmt In­dependent.ie er maðurinn 40 ára gamall og af rúmenskum upp­runa. Fer yfir­heyrsla yfir honum fram á næstu dögum. Það er talið að hann hafi verið einn að verki og hann ekki þekkt Ashling.

Á blaða­manna­fundi á vett­vangi morðsins í gær sagði lög­reglu­stjórinn Eamonn Curl­ey að lög­regla muni gera allt sem í sínu valdi stendur til að leysa málið. „Þetta svæði hér, þar sem glæpurinn átti sér stað, er vin­sæll meðal íbúa Tullamor­e og er mikið notaður til af­þreyingar“, en göngu­stígurinn sem Murp­hy var á er nefndur í höfuðið á Fiona Pender en hún hvarf frá heimili sínu í Tullamor­e fyrir aldar­fjórðung síðan og er enn ó­fundin. Rann­sókn á hvarfinu stendur enn yfir.

Ashling var kennari við Dur­row National-grunn­skólann í Tullamor­e.
Mynd/Samsett

„Ashling var kennari við Dur­row National-skólann. Bænir okkar eru nú hjá fjöl­skyldu Ashling og í raun sam­fé­lagsins alls, sam­starfs­fólki hennar og börnunum sem hún kenndi sem eru nú án kennara síns. Um leið og til­kynnt var um glæpinn fór morð­rann­sókn af stað“, sagði Curl­ey.

„Ég vil votta föður, móður og fjöl­skyldu Ashling alla mína sam­úð. Ég er í á­falli. Ég gat ekki sofið liðna nótt hugsandi um þetta allt saman því þetta er svæði sem ég fer um oft. Hún fór þangað að skokka, hún gerði það reglu­lega. Ég er orð­laus“, sagði Declan Harvey, bæjar­full­trúi í Tullamor­e i fyrradag.

„Senni­lega öruggasti staður í heimi“

„Tullamor­e er senni­lega öruggasti staður í heimi og eftir gær­daginn mun fólk vera hrætt við að ganga með fram síkinu. Þetta er yndis­legt svæði og er gott til að hreinsa hugann. Þetta er mjög vin­sæl leið sem allir labba. Fólk gengur með hundana sína, fólk með börn og barna­vagna.“

Írski dóms­­mála­ráð­herrann Helen McEntee tísti um morðið og sagði hug sinn vera hjá ættingjum Ashling. Þetta væri „sannar­­lega sláandi glæpur“ og hvatti þau sem kynnu að hafa vit­neskju um málið að stíga fram.