Sjö ára drengur var bitinn af hundi í Grafar­holti í gær. Fram kemur í dag­bók lög­reglunnar á höfuð­borgar­svæðinu að drengurinn hafi verið með bit­sár á hægra læri. Faðir drengsins, eig­andi hundsins og hundurinn voru á vett­vangi þegar lög­reglu bar að.

Faðir drengsins gerði engar kröfur um refsingu en eig­andi hundsins ætlaði að láta svæfa hundinn. Eig­andanum var mjög brugðið vegna hegðun hundsins, sem er eins árs, og sagði svona aldrei hafa gerst áður.

Þá var lög­reglan einnig kölluð til vegar ofur­ölvi er­lends manns á salerni í rútu. Rútan hafði verið að ferja er­lenda fót­bolta­á­huga­menn í flug og mun þessi maður hafa sofnað á salerni rútunnar og misst af fluginu. Lög­reglan vakti manninn og hann gekk sína leið.

Fimmtán ára drengur var stöðvaður af lögreglu en hann hafði keyrt bifreið sína vel yfir hámarkshraða, en hann keyrði á 111 kílómetra hraða þar sem hámarkshraðinn var 80 kílómetra hraði. Ökumaðurinn, eðli málsins samkvæmt, hafði ekki ökuréttindi. Málið var unnið með aðkomu föður drengsins.

Lög­reglan var einnig kölluð á vett­vang vegna konu sem var í annar­legu á­standi við veitinga­stað í Múla­hverfi í Reykja­vík. Konan sagðist vera að kaupa sér fíkni­efni og að hún hefði notað efnin en hefði þá verið að líða út af. Konan taldi fíkni­efna­salann hafa byrlað sér og að fólk hefði ráðist á hana.

Þá var einnig kallað til lög­reglu vegna líkams­á­rásar í mið­bænum. Slags­málin voru yfir­staðin þegar lög­regla kom á vett­vang og var einn blóðugur maður enn þar er lög­reglu bar að. Ekki var at­vikið bókað frekar.