Sjö ára drengur var bitinn af hundi í Grafarholti í gær. Fram kemur í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu að drengurinn hafi verið með bitsár á hægra læri. Faðir drengsins, eigandi hundsins og hundurinn voru á vettvangi þegar lögreglu bar að.
Faðir drengsins gerði engar kröfur um refsingu en eigandi hundsins ætlaði að láta svæfa hundinn. Eigandanum var mjög brugðið vegna hegðun hundsins, sem er eins árs, og sagði svona aldrei hafa gerst áður.
Þá var lögreglan einnig kölluð til vegar ofurölvi erlends manns á salerni í rútu. Rútan hafði verið að ferja erlenda fótboltaáhugamenn í flug og mun þessi maður hafa sofnað á salerni rútunnar og misst af fluginu. Lögreglan vakti manninn og hann gekk sína leið.
Fimmtán ára drengur var stöðvaður af lögreglu en hann hafði keyrt bifreið sína vel yfir hámarkshraða, en hann keyrði á 111 kílómetra hraða þar sem hámarkshraðinn var 80 kílómetra hraði. Ökumaðurinn, eðli málsins samkvæmt, hafði ekki ökuréttindi. Málið var unnið með aðkomu föður drengsins.
Lögreglan var einnig kölluð á vettvang vegna konu sem var í annarlegu ástandi við veitingastað í Múlahverfi í Reykjavík. Konan sagðist vera að kaupa sér fíkniefni og að hún hefði notað efnin en hefði þá verið að líða út af. Konan taldi fíkniefnasalann hafa byrlað sér og að fólk hefði ráðist á hana.
Þá var einnig kallað til lögreglu vegna líkamsárásar í miðbænum. Slagsmálin voru yfirstaðin þegar lögregla kom á vettvang og var einn blóðugur maður enn þar er lögreglu bar að. Ekki var atvikið bókað frekar.