Ungt fólk sem notar fíkniefni í æð og hefur ótrygga búsetu er í mestri hættu á að endursýkjast (sýkjast aftur eftir lækningu) af hinum hættulega smitsjúkdómi lifrarbólgu C. Gríðarlegur árangur hefur náðst í baráttunni við sjúkdóminn hérlendis á undanförnum árum en endursýkingar eru fleiri en búist var við. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem birt var í vísindaritinu Clinical Infectious Diseases.

„Lifrarbólga C veitir ekki verndandi ónæmi. Þú getur sýkst aftur og aftur,“ segir Jón Magnús Jóhannesson, læknir og rannsakandi hjá TraP Hep C-teymi Landspítalans. „Þeim mun yngri sem þú ert, því líklegra er að endursýking geti átt sér stað, sem er líklegast af margþættum ástæðum.“

Þá er mjög líklegt að óstöðug búseta sé sjálfstæður áhættuþáttur fyrir endursýkingu; það er að vera heimilislaus eða búa í óstöðugum húsakosti, til dæmis gistiskýli.

Árið 2016 hófst mikið átak í baráttunni við lifrarbólgu C, sem er alvarlegur tilkynningarskyldur smitsjúkdómur vegna lifrarbólgu C-veirunnar. Veiran dreifist fyrst og fremst með óhreinum sprautubúnaði þegar einstaklingar nota fíkniefni í æð. Veiran veldur vanalega langvinnum sýkingum sem geta endað með lifrarkrabbameini, skorpulifur og lifrarbilun. Aðdragandi átaksins var nýleg tilkoma lyfja sem lækna sjúkdóminn í allt að 95 prósentum tilfella en áskorunin var að tryggja aðgengi allra að meðferðinni, þar með talið einstaklinga sem eru í virkri notkun fíkniefna í æð.

„Ef fólk er nálgast af virðingu og boðin meðferðin að kostnaðarlausu er þessu verkefni tekið mjög vel. Þetta er hópur sem er líklegri en aðrir að eigi í fjárhagsvanda og margþættum öðrum félagslegum erfiðleikum,“ segir Jón Magnús, sem var áður sjálfboðaliði í Frú Ragnheiði en hefur nú snúið sér meira að rannsóknahliðinni. Meðferðin tekur nokkrar vikur, lyfið er gefið munnlega og veiran mæld með blóðprufum. Ekki var skylda að taka þátt í rannsókninni samfara meðferð.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur sett sér það markmið að útrýma lifrarbólgu C sem lýðheilsuvá á heimsvísu en Ísland er eitt þeirra landa þar sem mikill árangur hefur náðst – önnur lönd þar eru til dæmis Egyptaland, Kanada, Spánn og Ástralía. Jón Magnús segir yfirsýn heilbrigðiskerfisins hér yfir sjúkdóminn góða og meðferðarheldni sjúklingahópsins sömuleiðis. Hér er lítið samfélag og miðlægt heilbrigðiskerfi sem geri það að raunsærra markmiði að meðhöndla alla.

Nýgengi lifrarbólgu C hefur minnkað mikið frá árinu 2016 og þar á undan. Engu að síður sýnir rannsóknin að endursýkingar eru fleiri en búist var við. „Þetta sýnir að við megum ekki halda að sigurinn sé unninn og slá slöku við. Við þurfum að tryggja að fólk með lifrarbólgu C fái áfram greitt aðgengi að allri nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu og sérstakt eftirlit,“ segir Jón Magnús. Um stórt lýðheilsumál sé að ræða.

Aðspurður um hvort hægt sé að útrýma lifrarbólgu C alfarið segir Jón Magnús að það sé fræðilega mögulegt. Lyfin séu það góð og sjúkdómurinn smitist ekki til dýra annarra en manna. Hvort það er raunhæfur möguleiki á komandi árum eða áratugum er annað mál, og endursýkingarnar valda því að erfitt er að takast á við sjúkdóminn.

Jón Magnús Jóhannesson, læknir og rannsakandi hjá TraP Hep C-teymi Landspítalans