Þeir sem greindir voru með Covid-19 i gær búa allir á hjöfuðborgarsvæðinu nema fimm. Þrír á vesturlandi, einn á vestfjörðum og einn á suðurlandi. Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir biðlar til íbúa á landsbyggðinni að huga vel að einstaklingsbundnum sýkingavörnum. Þetta kom fram á upplýsingafundi almannavarna sem hófst klukkan tvö.

Í gær greindust 38 ný smit af Covid-19 hér innanlands. Yfir helmingur þeirra sem greindust voru í sóttkví, eða tuttugu og einn en sautján hinna nýgreindu voru ekki í sóttkví. Tekin voru 1404 sýni innanlands en 1058 á landamærunum.

Ungt fólk í meirihluta veikra

Flest þeirra smita sem greindust í gær tengjast skemmtanalífinu og meðalaldur þeirra sem smituðust í gær eru 35 ár.

Flestir sem greinast nú eru með veiru af nýjum stofni sem fannst fyrst í ferðamanni sem kom hingað til lands 10. ágúst síðastliðinn.

Alls hafa 156 smit greinst innanlands síðustu daga. Í fyrradag greindust 75 smit , þar af voru 37 í sóttkví.

„Það er ánægjulegt sjá fækkun á jákvæðum sýnum milli daga en við túlkum það með varúð. Við erum þó ekki að sjá veldisvöxt, sem er ánægjulegt,“ segir Þórólfur. Rakning gangi enn mjög vel og vandséð að það sé tilefni til hertari aðgerða.

„Ég mun því ekki leggja til við ráðherra að aðgerðir verði hertar eins og við íhuguðum í gær, en ég mun þó leggja til að krár og skemmtistaðir verði áfram lokaðir til 27. september.“

Veikt fólk of mikið á ferðinni

Þá ítrekar Þórólfur við fólk sem er veikt að halda sig heima.

„Því miður erum við að sjá of mikið af því að fólk sé á ferðinni þótt það sé veikt og gerir aðra þannig útsetta fyrir veirunni,“ segir Þórólfur og biðlar eindregið til fólks að gera þetta ekki.

Með Þórólfi á fundinum er Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri. Viðir Reynisson er fjarri góðu gamni en hann er kominn í sóttkví. Starfsmaður Rásar tvö hefur greinst með Covid-19 en Víðir var í viðtali á útvarpsstöðinni í gær.