Mikið hefur verið fjallað undan­farið um stöðu ungs fatlaðs fólk sem vegna skorts á úr­ræðum neyðist til að dvelja á hjúkrunar­heimilum langt fyrir aldur fram. Tæp­lega 150 ungir fatlaðir ein­staklingar eru í dag vistaðir á hjúkrunar­heimilum, sumir jafn­vel þvert á eigin vilja.

Til að vekja at­hygli á þessari stöðu mun Ör­yrkja­banda­lag Ís­lands halda mál­þingið „Ungt fólk á enda­stöð“ á Grand Hótel klukkan 13:00 í dag.

Fé­lags­mála­ráðu­neytið skipaði starfs­hóp í janúar síðast­liðnum um heildar­endur­skoðun laga um þjónustu við fatlað fólk með lang­varandi stuðnings­þarfir. Þuríður Harpa Sigurðar­dóttir, for­maður ÖBÍ, segist þó ekki vita til þess að ein­hver sér­stök vinna sé komin í far­veg varðandi lausn á þessu víð­tæka vanda­máli.

„Nei, ég veit ekki til þess. Menn eru auð­vitað bara með­vitaðir um á­standið. Það er kannski helst Reykja­víkur­borg sem hefur svona verið að stíga fram og reyna að fara eftir samningi Sam­einuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólk. En engu að síður þá er verið að vista fólk hér inni á hjúkrunar­heimilum og menn eru alveg með­vitaðir um að þegar það gerist þá er gamalt fólk teppt inn á spítala. Það kemst ekki inn á hjúkrunar­heimilin því ungt fólk er að teppa plássin á hjúkrunar­heimilunum,“ segir Þuríður.

Ó­mögu­leg staða

Að sögn Þuríðar líður ungu fólki ekkert sér­lega vel á hjúkrunar­heimilum sem eru skipu­lögð með þarfir aldraðs fólks í huga. Þá segir hún um­ræðu síðustu mánaða hafa vakið mikla at­hygli en það taki alltaf tölu­verðan tíma að fara í gegnum stjórn­kerfi ríkis og sveitar­fé­lags.

„Sveitar­fé­lögin eru að ýta fólki með mikla þjónustu­þörf yfir á hjúkrunar­heimilin af því þau eru að losa sig við fjár­hags­legar skuld­bindingar en það er á kostnað mann­réttinda þess fólk sem lendir þar,“ segir Þuríður.

Unga fólkið, því líður ekkert vel í ein­hverju einu her­bergi sem er skipu­lagt fyrir þjónustu­þörf ní­ræðra gamal­menna og vilja fá að vera úti á meðal jafn­aldra.

Þannig það hefur orðið vitundar­vakning en við gætum þurft að bíða í ein­hvern tíma þar til við sjáum breytingar?

„Já, ég er að vona að menn taki þetta núna og séu með­vitaðir um að þetta sé ó­mögu­leg staða. Það er líka ó­mögu­leg staða að ungt fólk sé að teppa pláss á hjúkrunar­heimilum, sem verður til þess að mjög dýr pláss á sjúkra­húsum verða upp­tekin. Þetta er mann­úðar­verk og það þarf að laga þetta og viður­kenna þennan vanda.“

Að sögn Þuríðar er það ó­mögu­leg staða ungt fatlað fólk þurfi að velja á milli þess að dvelja hjá fjöl­skyldum sínum eða leggjast inn á hjúkrunar­heimili.

„Að ungt fólk hafi ekkert val og verði bara að vera heima og er þá í for­sjá ætt­menna, fjöl­skyldunnar, sem getur kannski ekkert bætt á sig um­önnun. Til þess að losa fjöl­skylduna undan þeirri um­önnunar­byrðinni þá velur ein­stak­lingurinn ein­fald­lega að fara á hjúkrunar­heimili af því það er ekkert annað í boði.“

Mál­þingið stendur frá kl. 13:00-16:15 og hægt verður að fylgjast með dag­skránni í streymi. Nánari upp­lýsingar má finna á vef Ör­yrkja­banda­lagsins.