Síðastliðinn ár hefur nokkuð verið í fréttum að ungmennum sé meinaður aðgangur að tjaldstæðum á Íslandi. Ástæður þess má rekja til þess að ungmenni eru almennt talinn líklegri til að valda hávaða eða truflun. Þá hafa mörg tjaldsvæði hafa tekið upp á því að setja há aldurstakmörk eða segja að tjaldstæðin séu einungis ætluð fjölskyldu fólki til þess að reyna að sporna gegn unglingasamkomum á svæðum sínum.

Sem dæmi má nefna Írska daga á Akranesi sem sérstaklega tóku fram að 23 ára aldurstakmark væri á tjaldsvæðinu alla hátíðina.

Fréttablaðið ræddi við Evu Hauksdóttir, aktivista og lögmann, sem skoðaði lagalegar stoðir þess að meina fólki aðgang að tjaldstæðum vegna aldurs. Eva segir að ekki sé bannað með lögum að meina fólki aðgang vegna ákveðins aldurs en þó sé um mismunun að ræða.

Mismunun ekki alltaf ólögleg

„Það má frekar orða það þannig að það eru engin lög sem banna þessa skítlegu hegðun fyrirtækja að mismuna fólki á þessum grundvelli,“ segir Eva sem telur það misrétti að meina ungu fólki aðgang að tjaldstæðum vegna aldurs

„Skítleg framkoma er ekki alltaf ólögleg og bann við mismunun nær ekki til allra hópa samfélagsins. Að minnsta kosti ekki ennþá og mismunun getur verið réttlætanleg í sumum tilvikum.“ Segir Eva og nefnir dæmi „þá geta til dæmis blindir ekki fengið ökuréttindi og það er vissulega mismunun á grundvelli fötlunar. En það dettur engum það í hug að það sé ekki allt í lagi vegna þess að þarna erum við að tala um öryggisatriði,“

Þannig sé í vissum tilfellum réttlætanlegt að mismuna fólki en slík mismunun verði að vera málefnaleg og rökstudd.

„Við erum einnig með stjórnarskrárákvæði sem inniheldur lögbundna aldurs mismunun. Það er að segja að þú getur ekki verið kjörgengur til forseta undir 35 ára aldri og þannig eru ýmis frávik frá þessu banni gegn mismunum. En það verður að vera málefnalegt.“ Segir Eva.

Dagskrá fyrir Írska daga sem fóru fram 30. júní til 3. júlí. Tekið er fram að 23 ára aldurstakmark sé á tjaldstæðinu alla hátíðina.
Mynd/Írskirdagar

Aldur ekki nefndur í hegningarlögum um mismunun

„Bæði mannréttinda sáttmáli Evrópu og stjórnarskráin kveður á um að allir eigi að njóta mannréttinda án tilliti til kynferðis, trúarbragða og ýmiss fleira en í tilfelli tjaldstæðanna erum við ekki beint að tala um mannréttindi. Aftur er ákvæði í 108. grein hegningarlaga sem hljóðar svo:

„Hver sem í atvinnurekstri eða þjónustustarfsemi neitar manni um vörur eða þjónustu til jafns við aðra á grundvelli þjóðernis hans, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar skal sæta sektum eða fangelsi allt að 6 mánuðum"

„Þarna er aldur ekki nefndur. Ef að þetta unga fólk sem hefur verið að lenda í þessu ætlaði núna að leita réttar síns, þá held ég að það mál myndi ekki vinnast fyrir dómi. Því það er ekki neitt í lögum sem beinlínis bannar eigendum tjaldstæða að mismuna eftir aldri."

Ungmenni skemmta sér á þjóðhátíð í eyjum.
Mynd/Vilhelm

Verður brátt ólöglegt að mismuna eftir aldri

Eva segir að þetta komi þó til með að breytast en þann 15. Júní var samþykkt lagabreyting sem tekur fram að ólöglegt sé að mismuna fólki vegna aldurs þess.

„Það eru í gildi lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna. Þetta eru lög númer 85/2018 og núna í júní var samþykkt í alþingi að bæta við þessi lög. Það er þá ekki bara kynþáttur og þjóðernisvitund sem skiptir máli heldur má ekki mismuna fólki lengur á grundvelli trúar, lífsskoðunar, fötlunar, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningu."

segir Eva og bætir við

"þarna er búið að bæta þessu við að ekki má mismuna fólki eftir aldri en þetta er utan vinnumarkaðarins. Það er þegar í gildi lög um að það sé bannað að mismuna fólki á grundvelli aldurs á vinnumarkaði en það eru ákveðnar undantekningar á því. Þetta er sem sagt utan vinnumarkaðar og þetta horfir þannig allt til betri vegar. En hvað aldur varðar þá öðlast þessi lög ekki gildi fyrr en 1. júlí 2024. Þannig að fram til þeirrar dagsetningar þá geta fyrirtæki komist upp með að mismuna fólki á grundvelli aldurs,“ segir Eva en ekki liggur þó fyrir hvernig slíku banni verði framfylgt.

„Það er gefinn þetta langur tími fyrir gildistöku varðandi aldur mögulega vegna þess að það er miklu oftar sem það telst málefnalegt að mismuna á grundvelli aldurs heldur en til dæmis kyns eða kynhneigðar. Vegna þess að aldur getur svo oft haft áhrif. En eftir það þá má ekki mismuna á grundvelli aldurs nema að það séu málefnalegar ástæður fyrir því og þá þarf að setja sérstök lög um það ef að á að vera hægt að banna fólki aðgang til dæmis að tjaldsvæðum á grundvelli þess að það sé ungt.“

En Eva spyr þá einnig hvaða málefnalegu rök séu með því að meina ungu fólki að aðgang að tjaldsvæðum.

„Eru það málefnaleg rök að ungt fólk sé líklegra en aðrir til að vera með hávaða. En það eru sennilega rökin fyrir þessu núna“ segir Eva sem segist þó skilja að vissu leyti hvers vegna tjaldstæði grípa til þessara ráðstafana.

„Hugmyndin er væntanlega sú að vernda aðra gesti tjaldstæðanna en þarna er í rauninni verið að ganga út frá því að bara vegna þess að þú ert tvítugur að þá sért þú líklegur til þess að eyðileggja friðinn fyrir hinum. En þetta er bara eins og að segja að þú ætlir ekki að ráða konur á barneignaraldri því þær eru miklu líklegri til þess að verða óléttar heldur en karlarnir eða gömlu konurnar. Það að það sé gengið út frá því að þú sért einhver ódámur bara vegna þess að þú ert tvítugur það bara er ekki málefnalegt.“