Að minnsta kosti sex nemendur og tveir starfsmenn skóla í suðaustur Brasilíu létu lífið þegar tveir menn hófu skothríð í skólanum í morgun, BBC greinir frá.

Mennirnir létu til skarar skríða klukkan hálf tíu að staðartíma í morgun, í ríkisskóla í Suzano nærri Sao Paulo í Brasilíu, þegar að flestir nemendur skólans voru úti í frímínútum. Voru þeir grímuklæddir og segir lögregla þá hafa svipt sig lífi eftir árásina. Nemendur við skólann eru á aldrinum sex til átján ára. Lögregla segir árásarmennina hafa verið fyrrverandi nemendur við skólann en tilefni ódæðisins er ekki ljóst. 

„Vettvangurinn er mjög sorglegur, sá sorglegasti sem ég hef séð á ævi minni. Ungmennin voru grimmilega tekin af lífi,“ sagði ríkisstjóri Sao Paulo João Doria, stuttu eftir árásina, en hann heimsótti skólann. 

Þrátt fyrir að morð með skotvopnum séu nokkuð algeng í Brasilíu eru skotárásir í skólum af þessu tagi fátíðar.