Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk nokkrar tilkynningar í gær vegna ungmenna sem voru með einhvers konar ónæði eða að slást.

Í Breiðholti var kvartað undan hópi ungmenna sem reyndu að komast inn í bíla. Samkvæmt dagbók lögreglunnar var hún upptekin í öðrum verkefnum og gat ekki sinnt þessu. Samkvæmt dagbókinni var í tvígang tilkynnt um ungmenni með ónæði annars vegar og svo hins vegar að slást.

Hóparnir fundust ekki þegar lögregla fór á þá staði sem þau áttu að vera á.

Einnig var tilkynnt um hóp ungmenna með ónæði á skólalóð sem talið var að væru að sprengja flugelda.

Þá var eitthvað um verkefni tengt ölvun en maður réðst á dyraverði sem voru að vísa honum út af bar í miðborginni og verður kærður fyrir það. Einn var handtekinn vegna líkamsárásar í Vesturbæ. Alls gistu þrír í fangageymslu.