Ungmenni í meira en hundrað löndum ætla að skrópa í skólann á morgun og ætla í staðin að mótmæla aðgerðarleysi stjórnvalda í umhverfismálum. Á Íslandi verður mótmælt, líkt og síðustu föstudaga, fyrir framan Alþingi. 

Skólaverkfall fyrir umhverfið hófst hjá hinni sænsku Gretu Thunberg, sem leiddist aðgerðarleysi stjórnvalda og ákvað í stað þess að mæta í skólann að setjast fyrir framan þinghúsið í Stokkhólmi og þrýsta á stjórnvöld að beita sér frekar gegn loftslagsbreytingum. Síðan Greta hóf sitt verkfall á síðasta ári hafa ungmenni fjölda annarra landa tekið undir með henni og mótmælt aðgerðarleysi stjórnvalda. 

Gert er ráð fyrir að verkfallið á morgun verði það stærsta til þessa og hafa skólaverkföll verið skipulögð í Evrópu, Ástralíu, Asíu og Bandaríkjunum. Verkfallið hér á landi hefst klukkan tólf á morgun snúa kröfur ungmennanna að því að Ísland taki af skarið, lýsi yfir neyðarástandi og láti að minnsta kosti 2.5 % af þjóðarframleiðslu renna beint til loftslagsaðgerða. 

Á sjöunda hundrað hafa boðað komu sína á mótmælin á Austurvelli á morgun og meira en þúsund hafa áhuga á viðburðinum.