Hátt í 200 ung­menni hafa frá því í mars leitað til Stíga­móta í gegnum net­spjallið Sjúkt spjall en af þeim vilja 65 prósent ræða reynslu sína af of­beldi.

„Krakkar af öllum kynjum nota net­spjallið en þegar kemur að reynslu af of­beldi eru stelpur 93 prósent þeirra sem hafa sam­band, lang­oftast sem brota­þolar. Þjónustan er fyrir 13 til 20 ára en meðal­aldur þeirra sem hafa sam­band er 16 ár. Hinn dæmi­gerði notandi spjallsins er 16 ára stelpa í of­beldis­sam­bandi,“ segir Ey­gló Árna­dóttir verk­efna­stýra fræðslu og for­varna hjá Stíga­mótum.

Ey­gló segir að sam­kvæmt tölum Stíga­móta verði 70 prósent þol­enda kyn­ferðis­of­beldis fyrir of­beldinu fyrir 18 ára aldur og segi oft engum frá fyrr en á full­orðins­aldri.

„Ung­linga­spjallinu er ætlað að mæta þessum vanda. Oftast er kyn­ferðis­legt of­beldi til um­ræðu, en stór hluti óskar einnig eftir sam­tali um and­legt of­beldi í ástar­sam­bandi,“ segir Ey­gló og heldur á­fram:

„Þau koma með frá­sagnir af virki­lega grófu of­beldi og lýsa skýru mynstri heimilis­of­beldis í sam­bandinu, sem kom okkur hrein­lega á ó­vart því þau eru svo ung.“

Hún les upp at­huga­semd frá einni stúlku: „Þetta er svo skrítið. Ég hef ekkert til að vera föst við hann, ekki barn eða hús­næði en samt líður mér föst. Það hljómar svo auð­velt að fara en er það ekki.“

„Mér finnst á­huga­vert að þessi stúlka sjái svona skýrt það sem við lesum úr sam­tölunum. Þetta eru korn­ungar stelpur, lang­flestar í for­eldra­húsum en upp­lifa sig samt al­ger­lega fastar í of­beldis­sam­bandi,“ segir Ey­gló. Þetta varpi sterku ljósi á það hversu snemma of­beldið byrjar.

Nafnleysið lykilatriði

„Þau koma inn í skjóli nafn­leyndar og geta rætt við okkur í trúnaði og á sínum for­sendum, nafn­leysið er al­gert lykil­at­riði. Margt kemur í veg fyrir að brota­þolar leiti að­stoðar í sínu nær­um­hverfi. Svo sem ótti við að vera kennt um, að vera ekki trúað eða vera út­skúfað,“ segir Ey­gló og að á net­spjallinu fái þau svör við spurningum sínum, viður­kenningu á of­beldinu og sam­tal um líðan sína.
„Spjallið er fyrst og fremst ætlað til að að­stoða ung­menni með erfiðar til­finningar en auð­vitað reynum við líka að hjálpa þeim við að koma sínum málum í réttan far­veg og hvetja þau til að leita að­stoðar í sínu um­hverfi. En áður en þau treysta sér í það, þurfa þau skýr svör við spurningum sínum,“ segir Ey­gló og að ung­mennin komi aðal­lega inn á spjallið í leit að svörum um hvort upp­lifun þeirra sé í raun of­beldi.

Þetta er svo skrítið. Ég hef ekkert til að vera föst við hann, ekki barn eða hús­næði en samt líður mér föst. Það hljómar svo auð­velt að fara en er það ekki

„Hvort þeim hafi verið nauðgað, hvort þau séu í of­beldis­sam­bandi eða hvort sam­skiptin séu eðli­leg,“ en vegna þess hve mörg eiga erfitt með að skil­greina eigin upp­lifun sem of­beldi er spjallið aug­lýst með frekar opnum for­merkjum og því koma einnig inn al­mennar vanga­veltur um til dæmis sam­bönd, ástar­sorg, kyn­líf og sam­skipti.

Er það á­hyggju­efni að svo mörg leiti til ykkar og viti ekki að þau séu að upp­lifa of­beldi?

„Já sannar­lega. Við veltum fyrir okkur hvað þurfi að gera,“ segir Ey­gló og að spjallið sýni að fræðsla um sam­bönd og of­beldi, kyn­líf og klám þurfi að vera miklu ítar­legri og byrja mun fyrr.

Ein skólaheimsókn ekki nóg

„Þetta getur ekki verið ein skóla­heim­sókn ár­lega frá Stíga­mótum. Það dugir ekki. Þetta þarf að vera sam­felld fræðsla, byrja snemma og fléttast inn í allt um­hverfi barna og ung­linga,“ segir Ey­gló og að sem dæmi horfi sum börn á of­beldis­fullt klám í mörg ár áður en þau fá vandaða sam­þykkismiðaða kyn­fræðslu.

Hún segir að miðað við erfiða reynslu sem lýst er á spjallinu, ráða­leysið og þakk­læti ungu not­endanna hafi spjallið nú þegar sannað sig sem mikil­væg þjónusta við ungt fólk.

Stíga­mót halda kynningar­fund klukkan 13 í dag á skrif­stofu sinni þar sem niður­stöðurnar verða kynntar frekar. Segir Ey­gló að þeirra ósk sé að finna fjár­magn til að festa net­spjallið í sessi.