Hátt í 200 ungmenni hafa frá því í mars leitað til Stígamóta í gegnum netspjallið Sjúkt spjall en af þeim vilja 65 prósent ræða reynslu sína af ofbeldi.
„Krakkar af öllum kynjum nota netspjallið en þegar kemur að reynslu af ofbeldi eru stelpur 93 prósent þeirra sem hafa samband, langoftast sem brotaþolar. Þjónustan er fyrir 13 til 20 ára en meðalaldur þeirra sem hafa samband er 16 ár. Hinn dæmigerði notandi spjallsins er 16 ára stelpa í ofbeldissambandi,“ segir Eygló Árnadóttir verkefnastýra fræðslu og forvarna hjá Stígamótum.
Eygló segir að samkvæmt tölum Stígamóta verði 70 prósent þolenda kynferðisofbeldis fyrir ofbeldinu fyrir 18 ára aldur og segi oft engum frá fyrr en á fullorðinsaldri.
„Unglingaspjallinu er ætlað að mæta þessum vanda. Oftast er kynferðislegt ofbeldi til umræðu, en stór hluti óskar einnig eftir samtali um andlegt ofbeldi í ástarsambandi,“ segir Eygló og heldur áfram:
„Þau koma með frásagnir af virkilega grófu ofbeldi og lýsa skýru mynstri heimilisofbeldis í sambandinu, sem kom okkur hreinlega á óvart því þau eru svo ung.“
Hún les upp athugasemd frá einni stúlku: „Þetta er svo skrítið. Ég hef ekkert til að vera föst við hann, ekki barn eða húsnæði en samt líður mér föst. Það hljómar svo auðvelt að fara en er það ekki.“
„Mér finnst áhugavert að þessi stúlka sjái svona skýrt það sem við lesum úr samtölunum. Þetta eru kornungar stelpur, langflestar í foreldrahúsum en upplifa sig samt algerlega fastar í ofbeldissambandi,“ segir Eygló. Þetta varpi sterku ljósi á það hversu snemma ofbeldið byrjar.
Nafnleysið lykilatriði
„Þau koma inn í skjóli nafnleyndar og geta rætt við okkur í trúnaði og á sínum forsendum, nafnleysið er algert lykilatriði. Margt kemur í veg fyrir að brotaþolar leiti aðstoðar í sínu nærumhverfi. Svo sem ótti við að vera kennt um, að vera ekki trúað eða vera útskúfað,“ segir Eygló og að á netspjallinu fái þau svör við spurningum sínum, viðurkenningu á ofbeldinu og samtal um líðan sína.
„Spjallið er fyrst og fremst ætlað til að aðstoða ungmenni með erfiðar tilfinningar en auðvitað reynum við líka að hjálpa þeim við að koma sínum málum í réttan farveg og hvetja þau til að leita aðstoðar í sínu umhverfi. En áður en þau treysta sér í það, þurfa þau skýr svör við spurningum sínum,“ segir Eygló og að ungmennin komi aðallega inn á spjallið í leit að svörum um hvort upplifun þeirra sé í raun ofbeldi.
Þetta er svo skrítið. Ég hef ekkert til að vera föst við hann, ekki barn eða húsnæði en samt líður mér föst. Það hljómar svo auðvelt að fara en er það ekki
„Hvort þeim hafi verið nauðgað, hvort þau séu í ofbeldissambandi eða hvort samskiptin séu eðlileg,“ en vegna þess hve mörg eiga erfitt með að skilgreina eigin upplifun sem ofbeldi er spjallið auglýst með frekar opnum formerkjum og því koma einnig inn almennar vangaveltur um til dæmis sambönd, ástarsorg, kynlíf og samskipti.
Er það áhyggjuefni að svo mörg leiti til ykkar og viti ekki að þau séu að upplifa ofbeldi?
„Já sannarlega. Við veltum fyrir okkur hvað þurfi að gera,“ segir Eygló og að spjallið sýni að fræðsla um sambönd og ofbeldi, kynlíf og klám þurfi að vera miklu ítarlegri og byrja mun fyrr.
Ein skólaheimsókn ekki nóg
„Þetta getur ekki verið ein skólaheimsókn árlega frá Stígamótum. Það dugir ekki. Þetta þarf að vera samfelld fræðsla, byrja snemma og fléttast inn í allt umhverfi barna og unglinga,“ segir Eygló og að sem dæmi horfi sum börn á ofbeldisfullt klám í mörg ár áður en þau fá vandaða samþykkismiðaða kynfræðslu.
Hún segir að miðað við erfiða reynslu sem lýst er á spjallinu, ráðaleysið og þakklæti ungu notendanna hafi spjallið nú þegar sannað sig sem mikilvæg þjónusta við ungt fólk.
Stígamót halda kynningarfund klukkan 13 í dag á skrifstofu sinni þar sem niðurstöðurnar verða kynntar frekar. Segir Eygló að þeirra ósk sé að finna fjármagn til að festa netspjallið í sessi.