Íslensk ungmenni neyta orkudrykkja, sem innihalda koffín, í mun meira mæli en ungmenni í öðrum Evrópulöndum.

Þau sem neyta mikils magns orkudrykkja eiga erfiðara með að sofna og mjög hátt hlutfall þeirra segist sofa lítið, minna en sex klukkustundir á sólarhring.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum skýrslu Áhættumatsnefndar um heilsufarslega áhættu vegna neyslu íslenskra ungmenna í framhaldsskólum á koffíni í drykkjarvörum.

Skoða þurfi aðgengi og markaðssetningu

Í skýrslunni kemur fram að svo virðist sem framboð, aðgengi og markaðssetning orkudrykkja hér á landi skili sér meiri neyslu íslenskra framhaldsskólanema en æskilegt er.

Niðurstöðurnar skýrslunnar gefi til kynna að takmarka þurfi aðgengi ungmenna að orkudrykkjum, sem dæmi innan veggja skólanna og á vegum íþróttahreyfinga og minnka þannig neikvæð áhrif koffíns á heilsu þeirra.

Meira en helmingur framhaldsskólanema neytir orkudrykkja einu sinni í viku eða oftar. Þá neytir tíundi hver framhaldsskólanemi undir átján ára og einn af hverjum fimm yfir átján ára aldri orkudrykkja daglega að því er fram kemur í skýrslunni.

Orkudrykkir geta einnig haft áhrif á tannheilsu. Formaður Tannlæknafélags Íslands sagði í samtali við Fréttablaðið í fyrra að markaðssetning á orku- og íþróttadrykkjum væri mjög röng og varhugaverð.

Mikil aukning væri á glerungseyðingu hjá unglingum og ungu fólki sem rekja megi til neyslu súrra orkudrykkja.

Áhættumatsnefndin gaf út skýrslu í fyrra þar sem koffínneysla grunnskólanema í 8. til 10. bekk var skoðuð. Þar var niðurstaðan sú sama að neysla íslenskra ungmenna væri með því mesta sem þekkist í Evrópu.

Skýrslan var unnin að beiðni Matvælastofnunar og var áhersla lögð á að rannsaka hvort neysla orkudrykkja, sem innihalda koffín, hafi neikvæð áhrif á heilsu ungmenna í framhaldsskólum.